Leikdagur: Finnland – Ísland

Loksins heldur þessi undankeppni áfram hjá strákunum okkar. Liðið er búið að koma sér í ansi góða stöðu í riðlinum og framundan eru tveir lykilleikir upp á framhaldið og sénsinn á að komast inn á Heimsmeistaramótið í Rússlandi á næsta ári.

A-landslið karla,
undankeppni HM í Rússlandi.
7. umferð í I-riðli,
Laugardagurinn 2. september 2017,
klukkan 16:00 (19:00 að staðartíma)

Finnland – Ísland

Völlur: Tampere Stadium í borginni Tampere í suðurhluta Finnlands. Finnska liðið spilar vanalega sína heimaleiki á Ólympíuvellinum í Helsinki en þar sem verið er að endurnýja hann þá spilar liðið á Tampere vellinum í þessari undankeppni, fyrir utan fyrsta leikinn sem var spilaður á Veritas vellinum í Turku.

Tampere völlurinn var upphaflega tekinn í notkun árið 1965 og svo endurnýjaður duglega árið 2004. Þetta er fjölnota völlur sem er einnig notaður m.a. fyrir tónleikahald og mótoríþróttir. Það er pláss fyrir 16.800 áhorfendur á vellinum.

Dómari: Pavel Královec frá Tékklandi

Veðurspá: Stefnir í skýjaðan dag í Tampere og alveg fram yfir leikinn. En þó er ekki von á úrkomu. Hitinn verður 15-16 gráður fram að leik og gæti lækkað niður í u.þ.b. 12 gráður á meðan leik stendur. Lítill vindur þó, ljómandi fínt fótboltaveður.


Hvar hittist stuðningsfólk?

Það verður glimrandi Íslendingafjör í Helsinki og Tampere þessa helgina. Mikið af stuðningsfólki ætlar að skella sér á körfuboltaleiki og styðja karlalandsliðið í körfu, taka svo góða lest yfir til Tampere til að ná fótboltaleiknum.

Fyrir þau sem ætla ekki að taka körfuboltann þá ætlar Tólfan að hittast á Passion barnum í Tampere klukkan 13:00 að staðartíma til að hita upp fyrir leikinn. Hér er svo viðburðurinn sjálfur á Facebook. Þarna verður örugglega stuð.

Embed from Getty Images

Tólfur af öllum stærðum og gerðum eru svo að sjálfsögðu velkomnar á heimavöll okkar í Reykjavík, Ölver. Þar ætlum við að horfa saman á leikinn og hafa gaman.


Finnland

Til upprifjunar má sjá upphitunina fyrir fyrri leik liðanna í þessari undankeppni hérna.

Embed from Getty Images

Staða á styrkleikalista FIFA: 110. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: J T T T S T T J J T
Markatala í síðustu 10 leikjum: 7-14

Finnland hefur ekki beint verið á glimrandi góðu róli í karlafótboltanum síðustu mánuði. Einn sigur í síðustu 10 landsleikjum (og það í þýðingarlausum vináttuleik) segir allt sem segja þarf.

Þetta finnska lið er þó ekkert glatað fótboltalið. Það hefur ekkert verið að grúttapa gegn sterkari þjóðunum í þessum riðli. Tveggja marka tap á útivelli gegn Tyrklandi er stærsta tapið. Liðið er samt aðeins með 1 stig eftir 6 leiki og ekki í neinni baráttu um neitt lengur, þetta er bara upp á stoltið hjá þeim.

Embed from Getty Images

Árangur Finnlands á heimavelli

Eina stig Finna í undankeppninni kom á heimavelli. Það var í fyrstu umferðinni, þegar öll liðin gerðu 1-1 jafntefli. Þá var Kósóvó í heimsókn hjá Finnlandi og mættust liðin í Turku.

Finnland hefur spilað tvo heimaleiki til viðbótar í undankeppninni, báða í Tampere. 9. október í fyrra kom Króatía í heimsókn. Mandzukic skoraði eina mark þess leiks á 18. mínútu.

Á þeim góða degi 11. júní sl., þegar Ísland vann Króatíu með eftirminnilegum hætti, kíkti úkraínska landsliðið til Tampere og spilaði þar landsleik við Finnland. Staðan eftir fyrri hálfleikinn var markalaus en gestirnir frá Úkraínu komust yfir á 51. mínútu með marki frá hinum hættulega Konoplyanka. Finnski framherjinn Joel Pohjanpalo, leikmaður Bayer Leverkusen, jafnaði svo metin á 72. mínútu. En finnski Adam var ekki lengi í undankeppnisparadís því Artem Besyedin, framherji Dynamo Kiev, skoraði sigurmark Úkraínu aðeins þremur mínútum síðar.

Hættulegustu leikmenn Finnlands

Finnland hefur skorað 4 mörk í þeim 6 leikjum sem liðnir eru af undankeppninni. Helmingur markanna kom í leiknum gegn Íslandi á Laugardalsvellinum. 4 leikmenn Finnlands hafa skorað þessi mörk og 2 aðrir leikmenn hafa fengið skráða á sig eina stoðsendingu hvor.

Einn þessar 4 markaskorara er ekki lengur í hópnum, Pohjanpalo er ekki með í þessu verkefni. Miðvörðurinn Paulus Arajuuri skoraði gegn Kósóvó, annað af tveimur landsliðsmörkum hans. Það toppar þó miðjumanninn Robin Lod en hann hefur aðeins skorað eitt landsliðsmark á ferlinum, gegn Íslandi.

Fjórði markaskorarinn er þó vanari því að skora mörk. Það er framherjinn Teemu Pukki. Hann skoraði líka gegn Íslandi og er markahæstur í núverandi landsliðshóp Finna, með 9 landsliðsmörk. 6 þeirra hafa reyndar komið í vináttuleikjum en það er sama, hann er aðalsóknarmaðurinn og hefur áður sýnt íslenska liðinu að hann getur skorað. Það þarf að passa upp á hann.

Embed from Getty Images


Ísland

Mynd: KSÍ

Staða á styrkleikalista FIFA: 20. sæti

Árangur í síðustu 10 leikjum: S S T S S T T S S S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 13-7

Ísland hefur haldið áfram þar sem frá var komið frá síðustu stórmótum og stórmótsundankeppnum. Liðið hefur náð að spila vel og jafnvel náð að knýja fram úrslit þegar það hefur ekki verið að spila sérstaklega vel. Fyrst og fremst hefur þetta landslið okkar verið að sýna gjörsamlega geggjaðan karakter. Það er eitthvað sem við viljum sjá meira af, engin spurning. Tólfan deilir þessari ástríðu með öllu okkar íþróttafólki.

Útileikirnir hjá Íslandi til þessa

Ísland hóf þessa undankeppni á útivelli, náði þá meira að segja að skora fyrsta markið gegn Úkraínu. En líkt og aðrir leikir í 1. umferð þá endaði sá leikur 1-1 eftir að hinn eitraði Yarmolenko náði að jafna metin. Bæði mörkin komu í fyrri hálfleik.

Íslenska liðið spilaði næsta útileik í 4. umferð, gegn Króatíu fyrir framan tómar stúkur. Marcelo Brozovic skoraði bæði mörkin eftir fín einstaklingsframtök með ákveðnum heppnisstimpli. Ísland var þó ekki mikið lakara liðið, enda sýndi það síðar að það getur alveg sigrað þetta króatíska lið.

Síðasti útileikur Íslands í undankeppninni var svo gegn Kósóvó, í Albaníu þann 24. mars síðastliðinn. Björn Bergmann og Gylfi Þór, Sigurðar- og Sigurðsson, komu Íslandi í 2-0 í fyrri hálfleik áður en Atdhe Nuhiu minnkaði muninn í síðari hálfleik.

Eitt jafntefli, eitt tap og einn sigur er því uppskeran úr þremur útileikjum íslenska liðsins í þessari undankeppni. Miðað við allt og allt þá viljum við bara sjá liðið bæta við einum sigri enn, enda liðið mun sterkara en það finnska.

Embed from Getty Images


Dómarahornið

Aðaldómarinn í þessum leik er hinn tékkneski Pavel Kravolec. Hann er nýbúinn að halda upp á stórafmæli, þann 16. ágúst varð hann fertugur og við vonum auðvitað að hann hafi fengið veglegt afmælispartý til að halda upp á þessi merku tímamót.

Kravolec er verkfræðingur að mennt og dæmir þar að auki í tékknesku deildinni í knattspyrnu. Hann byrjaði að dæma árið 1993 og hefur verið alþjóðlegur FIFA dómari frá árinu 2005. Hann hefur töluverða reynslu af stórmótum bæði félags- og landsliða frá 2005, ýmist í undankeppnum eða lokakeppnum.

Hans styrkleikar þykja helst vera gott líkamlegt form, gott samstarf við aðstoðardómara og góð samskipti við leikmenn. Gallarnir eru hins vegar helst þeir að það getur vantað upp á einbeitingu hjá honum og á það til að gera mistök þegar hann reynir að vera of ákveðinn í ákvarðanatöku.

Honum til aðstoðar í leiknum verða Roman Slysko og Ivo Nadvornik með fánana, báðir frá Tékklandi. Sem og fjórði dómarinn Miroslav Zelinka.

Embed from Getty Images


Myndbandshornið

Hér eru helstu atriðin úr fyrri leik liðanna í þessari keppni:

Hér er skemmtilega skondið lag um Finnland:

Hér er mikið pepp um Ísland: