Leikdagur: Ísland – Úkraína

Laugardagurinn í Finnlandi var ekki góður dagur fyrir karlalandsliðin okkar í fótbolta og körfubolta. Fótboltaliðið hafði komið sér í góða stöðu í riðlinum en slæmt tap gegn Finnlandi og sigur Úkraínu gegn Tyrkjum breytti þeirri stöðu töluvert. Ísland er núna í 3. sæti riðilsins. En það munar bara einu stigi á okkar strákum og liðinu sem kemur nú í heimsókn. Þetta er enn hægt, við trúum að strákarnir okkar geti þetta!

A-landslið karla,
undankeppni HM í Rússlandi 2018.
8. umferð í I-riðli,
þriðjudagurinn 5. september 2017,
klukkan 18:45

Ísland – Úkraína

Völlur: Laugardalsvöllurinn okkar. Ennþá höfum við ekki fengið almennilega að vita hvaða plön eru uppi um nýjan völl. Vonandi fer það nú að skýrast. En þangað til þá höfum við allavega í sameiningu gert Laugardalsvöllinn að góðum heimavelli sem öðrum liðum finnst ekki gott að heimsækja. Höldum því áfram!

Dómari: William Collum frá Skotlandi.

Veðurspá: Það verður 11-13 stiga hiti seinni partinn og fram á kvöld. Veðurspáin hefur verið heldur breytileg, fyrst átti ekkert að rigna yfir leiknum en nú er útlit fyrir að við gætum fengið rigningu. Skv. spánni verður hins vegar ekki meiri vindur en þetta 4-5 m/s. Gæti verið mun verra, sérstaklega á þessum árstíma.


Tólfudagskráin

Að vanda verður góð dagskrá hjá Tólfunni eins og alltaf fyrir heimaleiki. Stefnum að því að hittast hjá vinum okkar á BK kjúklingi klukkan 14 og fá okkur þar heimsklassa kjúklingavængi og með því. Hver sem mætir í Tólfutreyju fær fríkeypis að borða. Virkilega góð leið til að hefja leikdagsstemninguna.

Eftir nokkra vængi, franskar og jafnvel eins og 1-2 svalandi Carlsberg færum við okkur yfir á Ölver. Þar heldur upphitunin áfram, við hellum í okkur söngvatni, æfum lögin og svo hlustum við að sjálfsögðu á peppræðu frá Heimi Hallgríms.

Um 17:30 leggjum við af stað frá Ölveri niður á stuðningsmannasvæðið (fan zone) sem KSÍ ætlar að setja upp á bílastæðinu við Laugardalsvöllinn. Það gafst virkilega vel í júní og verður vonandi sama stemning þar núna.


Þessi lið mættust í fyrstu umferðinni á þessari undankeppni. Til upprifjunar má sjá upphitunina fyrir þann leik hérna.

Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 20. sæti

Gengi í síðustu 10 landsleikjum: S T S S T  T S S S T
Markatala í síðustu 10 leikjum: 10-7

Embed from Getty Images

Eftir góða sigra á Króatíu heima og Kósóvó úti kom skellur í Finnlandi. Ísland er betra fótboltalið en það finnska en það dugði ekki til í þetta skiptið. Finnarnir fá hrós fyrir frábært aukaspyrnumark og góða varnarvinnu í leiknum, þeir sýndu mikinn baráttuanda og íslenska liðið fann engin svör á því.

En það þýðir ekkert að svekkja sig of mikið á því, það er strax komið að næsta leik og strax komið tækifæri til að bæta upp fyrir síðasta leik. Þetta verður allt öðruvísi leikur gegn allt öðruvísi liði en þetta úkraínska lið er töluvert betra en það finnska. En strákarnir okkar sýndu það vel í fyrsta leiknum að það er síst slakara en þetta úkraínska lið.

Heimaleikirnir til þessa

Íslenska karlalandsliðið tapaði síðast á heimavelli í undankeppninni fyrir HM 2014. Þá tapaði liðið tveimur heimaleikjum en komst samt í umspilið. Síðan þá fór liðið í gegnum alla undankeppnina fyrir EM 2016 án þess að tapa heimaleik og er núna búið að spila 3 heimaleiki í þessari undankeppni og vinna þá alla.

Finnarnir unnust á karakter í uppbótartíma, Tyrkirnir voru sigraðir af krafti áður en liðið vann Króata af mikilli seiglu. Úkraína er næst og við viljum fleiri heimasigra. Laugardalurinn er okkar!

Embed from Getty Images


Úkraína

Sæti á styrkleikalista FIFA: 27. sæti

Gengi í síðustu 10 landsleikjum: T T J J S S S T S S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 13-8

Embed from Getty Images

Úkraína á markahæsta leikmanninn í I-riðli í þessari undankeppni. Andriy Yarmolenko, leikmaður Dortmund í Þýskalandi, hefur skorað 5 mörk til þessa, þar á meðal jöfnunarmarkið gegn Íslandi í fyrsta leiknum. Þessi leikmaður, sem getur spilað bæði sem framherji og á vængnum, er markahæsti leikmaðurinn í núverandi leikmannahópi Úkraínu.

Yarmolenko er einnig með tvær stoðsendingar í undankeppninni. Yevhen Konoplyanka er einnig með tvær stoðsendingar (og eitt mark), ásamt varnarmanninum Yaroslav Rakitskiy (ekkert mark). Rakitskiy er reyndar ekki í hópnum að þessu sinni.

Embed from Getty Images

Árangur Úkraínu á útivelli

Fyrsti útileikur Úkraínu var í Tyrklandi í 2. umferðinni, 6. október í fyrra. Úkraína byrjaði mjög vel í þeim leikjum og komst í 2-0 áður en hálftími var liðinn af leiknum. En Tyrkland náði að jafna metin og leikurinn endaði 2-2.

Í mars á þessu ári fór Úkraína í heimsókn til Króatíu. Eina markið í þeim leik skoraði Nikola Kalinic fyrir Króatíu. Í júní sigraði Úkraína svo Finnland í Finnlandi með 2 mörkum gegn 1. Það er því ljóst að Úkraína hefur heilt yfir verið að standa sig frekar vel á útivöllum þrátt fyrir að úrslitin hafi ekki alltaf verið eins og þeir hefðu kosið.

Embed from Getty Images


Dómarahornið

Skotinn William Collum hefur áður komið til Íslands til að dæma fótboltaleik. Hann dæmdi þá leik Íslands gegn Tékklandi í undankeppni EM sem Ísland vann 2-1.

Þegar Willie er ekki að dæma fótboltaleiki þá kennir hann trúarbragðafræði við kaþólska skólann Cardinal Newman High School í Bellshill í Skotlandi.

Hann er fæddur 18. janúar 1979 og hóf að dæma árið 2000. Hann var farinn að dæma í efstu deildinni í Skotlandi árið 2005 og orðinn alþjóðlegur FIFA dómari árið 2006.

Hann þykir vera í afbragðs líkamlegu formi (enda líkamsrækt og hlaup meðal áhugamála hans), hefur gott úthald og nýtir það vel hvað staðsetningar og hreyfingar á vellinum snertir. Hann hefur líka það orð á sér að beita hagnaðarreglunni vel og reynir að eiga í góðum samskiptum bæði við leikmenn og eigin aðstoðardómara. Hann er þó lítill og nær ekki alltaf að halda stjórninni á vellinum, sérstaklega ekki þegar leikmenn umkringja hann til að mótmæla. Hann vill bregðast of harkalega við þegar kemur að spjöldum, les ekki leikinn alltaf nógu vel, lætur það stundum slæda þegar menn eru með hendurnar óeðlilega mikið á lofti í baráttum og  er oft ekki nógu strangur að láta leikmenn taka innköst og föst leikatriði á réttum stöðum.

Aðstoðarmenn hans í þessum leik verða Francis Connor og Douglas Ross frá Skotlandi. Fjórði dómarinn verður John Beaton, einnig frá Skotlandi.

Embed from Getty Images


Myndbandshornið

Við viljum meira svona, takk: