Leikdagur: Ísland – Austurríki

Það er komið að síðasta leik íslenska liðsins á þessu Evrópumóti. Lokamótherjinn í C-riðlinum er Austurríki. Austurríki hefur komið á óvart í keppninni til þessa á meðan árangur okkar liðs er undir væntingum. Það verður þó ekkert gefið eftir í þessum leik.

Evrópukeppni kvenna í knattspyrnu í Hollandi,
miðvikudaginn 26. júlí 2017,
klukkan 18:45 að íslenskum tíma, 20:45 í Hollandi.

Ísland – Austurríki

3. umferð í C-riðli

Völlur: Sparta Stadion Het Kasteel í Rotterdam. Völlurinn tekur 11.000 manns.

Hér má sjá upphitunarpistil um Het Kasteel völlinn.
Hér má sjá upphitunarpistil um Rotterdam.

Kastalinn í Rotterdam (Mynd: Werk aan de Muur)

Lokaleikurinn

Framundan er lokakaflinn í þessu ævintýri sem EM 2017 hefur verið. Við höfum fengið glæsilegar gleðistundir, dramatískar svekkelsisstundir og allt þar á milli. Undankeppnin var gjörsamlega frábær en gleðimómentin hafa verið heldur færri á lokamótinu. Þó er alltaf gleði að fylgja þessu frábæra landsliði og sannur heiður að styðja við bakið á því.

Það hefur verið auðvelt að detta í þann gír að garga á dómarana og bölva þeim fyrir þeirra mistök. Enda er líka svekkjandi að sjá á svona móti, þar sem umgjörðin, vinsældirnar og fagmennskan í kringum kvennafótboltann er alltaf að aukast, að þá skuli dómgæslan vera svona langt á eftir öllu öðru. Það á auðvitað ekki bara við um leiki íslenska liðsins og alls ekki bara Ísland sem hefur tapað á því. En þetta er leiðinlegt að sjá og við vitum ekkert hvað hefði getað orðið með betri dómgæslu. Sem þýðir þá auðvitað að við getum tæpast farið að nota það sem afsökun fyrir genginu, enda eru leikmenn eða þjálfarar Íslands ekki að gera það.

Við vitum að liðið á mikið inni frá því sem það hefur sýnt okkur í síðustu leikjum. En það er líka öllum liðum mikill skellur að missa svona marga lykilleikmenn eins og Ísland hefur lent í að missa á síðustu mánuðum fyrir lokamótið. Fimm leikmenn duttu út úr aðalliðinu sem spiluðu algjört lykilhlutverk í 5 eða fleiri leikjum undankeppninnar. Auðvitað hefur það áhrif þegar lið sem er orðið vel samstillt og spilandi þarf að skipta út tæplega helmingnum af byrjunarliðsleikmönnum.

En sú afsökun nær líka aðeins svo og svo langt. Þjálfarateymið fékk knappan tíma, en tíma þó, til að finna taktískar lausnir á þessu máli. Það var ákveðið að skipta um leikkerfi og treysta á leikmenn sem hafa lítið spilað með landsliðinu. Það var hugrakkt val og þeir lítt reyndu leikmenn sem stigu inn í liðið tókust á við það verkefni af fullu hjarta. Þeir eiga hrós skilið og bjarta framtíð framundan hjá landsliðinu.

Það er mjög auðvelt að sitja á kantinum, eða í sófanum heima, og ræða það sem betur hefði mátt fara. Raunar er það eitt af því skemmtilega við það að hafa áhuga á knattspyrnu, það er að ræða svoleiðis hluti og greina það sem betur hefði mátt fara. Við vitum alveg að liðið hefði getað spilað betur. Kannski hefði uppstillingin mátt vera önnur, leikmannavalið öðruvísi, undirbúningurinn annar og svo framvegis. En Tólfan hefur fulla trú á að þjálfarateymið og liðið muni greina það vel og ítarlega eftir að mótinu lýkur. Það er mikill lærdómur í þessu sem liðið getur nýtt sér fyrir næstu verkefni.

Mynd: KSÍ – Twitter

Stuðningurinn skiptir líka máli á svona stundum. Það er auðvitað rosalega gaman að vera hress í stúkunni og tralla þegar vel gengur. Við í stúkunni höfum verið heppin með margar svoleiðis stundir á síðustu árum og eigum margar svoleiðis stundir enn inni. En það má ekki gleyma því að styðja liðið líka þegar það gengur ekki eins vel. Að láta liðið finna það að við höfum trú á því og vitum hvað það býr mikið í því.

Við tökum þennan leik og notum hann sem tækifæri til að þakka liðinu fyrir góða keppni, gott Evrópumót. Á sama tíma notum við þennan leik til að hvetja liðið áfram því næsta verkefni er handan við hornið. Og við stefnum hátt!

Upphitanir á leikdegi

Auðvitað er fanzone í Rotterdam. Það er á aðallestarstöð borgarinnar, Rotterdam Centraal Station. Ólíkt stuðningsmannasvæðum í mörgum öðrum af keppnisborgum EM þá er þetta svæði opið daglega, nánast út allt mótið. Þar eru leikir sýndir á risaskjá, keppt í ýmsum knattþrautum, plötusnúðar sem halda uppi stuðinu og veitingasala.

Völlurinn er í um 3 km fjarlægð frá lestarstöðinni. Google Maps reiknar með ca. 40 mínútna labbi á milli staða en það er allt í lagi að gefa sér rýmri tíma í þetta og mæta tímanlega.

EM torgið verður svo að sjálfsögðu á sínum stað á Ingólfstorgi. Það var heilmikil stemning þar í síðasta leik og góð mæting. Við viljum endilega sjá fullt af fólki mæta þar líka og senda landsliðinu góðan stuðning og jákvæða strauma.

Upphitun á EM torginu hefst klukkan 18:15.

Leikurinn sjálfur

En þá að leiknum sjálfum.

Dómarinn

Dómarinn í þessum leik verður Riem Hussein frá Þýskalandi. Henni til aðstoðar verða Christina Biehl og Chrysoula Kourompylia á fánunum, báðar einnig frá Þýskalandi. Fjórði dómari verður svo Carina Vitulano frá Ítalíu.

Riem Hussein er ekki aðeins knattspyrnudómari, hún er líka doktor í lyfjafræði. Dr. Riem Hussein fæddist þann 26. júlí 1980. Hún spilaði sem framherji til ársins 2005 en þá lagði hún markaskóna á hilluna og tók í staðinn upp dómaraflautuna. Hún hefur verið alþjóðlegur FIFA dómari frá árinu 2009. Síðustu tvö tímabil hefur hún dæmt reglulega í þriðju deild karla í Þýskalandi.

Þetta er annar leikurinn sem hún dæmir á þessu móti, 20. júlí dæmdi hún leik Hollendinga og Dana í A-riðlinum. Sá leikur endaði 1-0 fyrir Hollandi og kom markið úr vítaspyrnu.

Dr. Hussein hefur tvisvar sinnum áður dæmt leiki hjá íslenska liðinu. 22. október 2011 dæmdi hún leik Ungverjalands og Íslands í undankeppninni fyrir EM 2013. Sá leikur endaði með 0-1 sigri Íslands, Dóra María Lárusdóttir skoraði eina markið í þeim leik. Seinni leikurinn var svo 15. júní 2014, útileikur gegn Danmörku í undankeppninni fyrir HM 2015. Sá leikur endaði 1-1, aftur var það Dóra María Lárusdóttir sem skoraði mark Íslands.

Dr. Hussein hefur dæmt einn leik hjá Austurríki áður. Sá leikur var í undankeppninni fyrir þetta Evrópumót, leikur gegn Noregi í Noregi 2. júní 2016. Sá leikur endaði 2-2.

 Dr. Riem Hussein

Veðurspáin

Það verður léttskýjað í Rotterdam á leikdegi, hitinn á bilinu 20 til 22 gráður og þetta 3-4 m/s vestsuðvestan átt. Ljómandi fínt veður til að hita upp fyrir leikinn. Það gæti farið að rigna á köflum um átta leytið en það ætti að vera nokkuð hlýtt yfir leiknum sjálfum, 18-20 stiga hiti. Sólsetur er áætlað rétt áður en seinni hálfleikur hefst (21:42 að staðartíma).

Það verður líka ljómandi fínt veður á EM torginu á leikdegi. Spáin er svona:

Veðurstofa Íslands – vedur.is

Það gerist ekki mikið betra en þetta á Íslandi. Sól og lítill vindur. Hitinn fínn, úrkoma engin og skýjahula 0%. Ef það er ekki tilefni til að skella sér með eitthvað kalt og gott að drekka niður á EM torg og styðja landsliðið í góðum félagsskap, þá veit ég ekki hvað er!

Ísland

Sjá þetta lið!

Liðsmynd fyrir leikinn gegn Sviss (Mynd: UEFA.com)
Íslenska landsliðið

Stundum þarf bara ekkert að skrifa mikið um hlutina. Það þarf ekkert að henda fram tölfræði eða öðru álíka grúski. Stundum er nóg að leyfa bara myndunum, og leikmönnunum, að tala sínu máli.

#Dóttir

Preparation for Saturday have begun ?? #dottir #fyririsland

A post shared by Sif Atladottir (@sifatla) on

Hausinn upp og áfram gakk ?? Takk fyrir geggjaðan stuðning Ísland ??? #dottir #fyririsland #weuro2017

A post shared by Ingibjorg Sigurdardottir (@ingibjorg11) on

Final prep for the #weuro2017 ?? ?AriMagg

A post shared by Dagný Brynjarsdóttir (@dagnybrynjars) on

We go again ? Stuðningurinn sem við fengum var gjörsamlega geggjaður! Áfram gakk ??? . . ? @fotboltinet

A post shared by Hallbera Gisladottir (@hallberagisla) on

Gríðarlega svekkt en stolt af því að vera Íslendingur ??????? Áfram Ísland ?? #dottir #weuro2017 #fyririsland

A post shared by Fanndís Friðriksdóttir (@fanndis90) on

Svekkjandi í gær en þá er það bara að taka Sviss á laugardaginn?? #weuro2017 #fyririsland

A post shared by AglaMaría Albertsdóttir (@aglamariaalberts) on

Liðið okkar gefst aldrei upp. Sjáumst á vellinum ??????

A post shared by Elín Metta Jensen (@elinmettaj) on

Austurríki

Hér má sjá upphitunarpistil um Austurríki.

Austurríska landsliðið

Austurríska landsliðið er á sínu fyrsta Evrópumóti kvennalandsliða. Raunar er kvennalandsliðið á sínu fyrsta lokamóti stórmóts. Það byrjaði að spila vináttuleiki árið 1970 en tók ekki þátt í undankeppni EM fyrr en fyrir EM 1997 og ekki í undankeppni HM fyrr en í undankeppni HM 2003.

Landsliðsþjálfari liðsins er Dominik Thalhammer og fyrirliði liðsins er Victoria Schnaderbeck, sem hefur spilað fyrir stórliðið Bayern Munchen í áratug.

Í undankeppninni fyrir mótið var Austurríki í riðli 8, ásamt Noregi, Wales, Kasakstan og Ísrael. Liðið tapaði öðrum leiknum gegn Noregi og gerði jafntefli í hinum, auk þess sem það gerði markalaust jafntefli við Wales eftir að sæti í lokakeppninni var tryggt. Austurríki skoraði 18 mörk í leikjunum 8 og fékk á sig 4 mörk. Markahæst í liðinu var Nina Burger með 5 mörk en á eftir henni kom Nicole Billa með 4 mörk. Sarah Puntigam og Laura Feiersinger voru stoðsendingahæstar, báðar með 4 stoðsendingar í undankeppninni.

Fyrir mótið var Austurríki lægst skrifaða liðið í C-riðli, samkvæmt styrkleikalista FIFA. Austurríki er þar í 24. sæti, sem er besti árangur liðsins frá upphafi. En liðið kom af krafti inn í þetta mót og byrjaði á því að vinna Sviss í fyrsta leik, með einu marki frá Nina Burger. Austurríki lagði sinn leik mjög vel upp, spilaði 4-1-4-1 með hápressu sem virtist koma svissneska liðinu nokkuð á óvart.

Í næsta leik á eftir, gegn Frökkum, spilaði Austurríki með 3-5-2/3-4-1-2 og aftur virtist liðið ná að koma andstæðingnum á óvart því Austurríki komst yfir í fyrri hálfleik með marki frá Lisa Makas. Frakkland jafnaði með skalla eftir hornspyrnu í síðari hálfleik. Zinsberger í marki Austurríkis varði vel frá Frökkunum og Feiersinger misnotaði gott færi í fyrri hálfleik en lokastaðan var 1-1 og þessi lið því efst og jöfn í riðlinum fyrir lokaumferðina.

Það verður áhugavert að sjá hvort Austurríki komi með enn eina uppstillinguna gegn Íslandi eða taki aðra af þeim sem liðið hefur þegar spilað. Liðinu nægir jafntefli til að komast örugglega áfram úr riðlinum.

Ég hef gaman af þessum árangri sem austurríska liðið hefur verið að ná. Helst myndi ég vilja sjá Ísland vinna leikinn gegn Austurríki en að Austurríki kæmist samt áfram og héldi þar áfram að koma á óvart. Það er eitthvað skemmtilegt við svona ævintýri.

Fyrri viðureignir

A-kvennalandslið Íslands og Austurríkis hafa aldrei áður mæst á fótboltavellinum.

U17-landslið landanna hafa hins vegar fjórum sinnum mæst, þar af þrisvar sinnum á þessu ári. Ísland hefur unnið 3 af þeim leikjum og 1 endaði með jafntefli. Markatalan í þeim fjórum leikjum er 7-3 fyrir Ísland.

Fyrsti leikur U17-liðanna fór fram í fyrstu umferð undankeppni EM U-17 2012. Ísland og Austurríki mættust í Gloggnitz í Austurríki 7. október 2011. Glódís Perla Viggósdóttir var fyrirliði íslenska liðsins og Elín Metta Jessen var í byrjunarliðinu. Ísland vann þann leik 2-1.

Þrír leikmenn í núverandi EM hóp Austurríkis tóku þátt í þeim leik. Það voru þær Nicole Billa, Manuela Zinsberger og Sophie Maierhofer. Þá stýrði Dominik Talhammer U17-liði Austurríkis á þessum tíma, en hann stýrir núna A-landsliðinu á þessu Evrópumóti.

Við höldum áfram!

Gefum allt í þetta. Endum þetta á jákvæðum stuðningsnótum. Þegar þetta mót klárast þá er ekki langt í næsta leik. Við viljum sjá ykkur öll í stúkunni á Laugardalsvelli í september.

Áfram Ísland!