Leikdagur: Ísland – Færeyjar

Eftir erfitt en stemningsríkt lokamót EM hjá kvennalandsliðinu í sumar er nú að hefjast ný undankeppni. Undankeppnin fyrir EM var stórkostlegt, hvað sem lokamótinu líður, og nú viljum við sjá liðið ná upp sömu stemningu og sömu spilamennsku því við viljum alveg endilega skella okkur á HM í Frakklandi árið 2019. Tólfan kann vel við sig í Frakklandi, það höfum við alveg sýnt. Fyrsti leikurinn í þvi verkefni er heimaleikur gegn Færeyjum. Þann leik ætlum við að vinna!

A-landslið kvenna,
undankeppni HM í Frakklandi 2019.
1. leikur Íslands í 5. riðli,
mánudagurinn 18. september 2017
klukkan 18:15.

Ísland – Færeyjar

Völlur: Laugardalsvöllurinn okkar, heimavöllur íslensku landsliðanna. Ennþá hefur tafist að kynna hugmyndir um nýja útfærslu á þjóðarleikvangi Íslands en vonandi dettur það inn fljótlega.

Dómari: Sara Persson, frá Svíþjóð.

Veðurspá: Það er orðið haustlegt í veðurfari í Reykjavík, enda komið haust. Það var rigning og vindur yfir helgina og fyrri part leikdags er spáð rigningu. Miðað við veðurspá ætti það þó að vera nokkuð gott rétt yfir leiknum, spáð alskýjuðu og 11-12 stiga hita með ekki mjög miklum vindi. En það á að rigna síðar um kvöldið svo það er aldrei að vita nema það komi rigning á meðan leik stendur.

En okkur finnst rigningin góð!


Stuðningsmannasvæði

Tólfan ætlar að mæta á leikinn. Fyrir leik verður stuðningsmannasvæði fyrir framan Laugardalsvöllinn eins og á síðustu heimaleikjum. Það hefur gefist afskaplega vel og er mjög jákvæð þróun frá KSÍ til að auka stemningu fyrir leiki og á þátt í að stuðningsfólk mætir tímanlega í stúkuna til að geta sungið Ég er kominn heim og þjóðsönginn.

Á Facebooksíðu Tólfunnar má sjá sérstakan event fyrir leikinn, þið getið séð hann hérna og skráð ykkur til leiks með okkur.

Athugið, það er frítt á leikinn og því um að gera að fylla stúkurnar og hvetja liðið.


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 21. sæti

Liðsmynd fyrir leikinn gegn Sviss (Mynd: UEFA.com)

Ísland er síðasta liðið til að hefja leik í 5. riðlinum í þessari undankeppni. Vegna þess að það eru 5 lið í riðlinum þá spila ekki öll lið í hverri umferð og það kom í hlut Íslands að byrja á því að hvíla.

Það er um að gera að byrja vel og taka hvern leik alvarlega. 5 lið í riðlinum, aðeins eitt lið fer beint áfram á lokakeppni HM. Aðeins fjögur af sjö liðum í öðru sæti komast í umspil um tvö laus sæti í lokakeppninni til viðbótar.

Íslenska liðið á að vera töluvert sterkara en það færeyska. Það er gott að fá svona leik fyrst, heimaleik gegn andstæðingi sem ætti að vera veikari, til að ná stuðinu upp aftur eftir EM í sumar. En það borgar sig sannarlega ekki að vanmeta eitt eða neitt í þessu.


Færeyjar

Staða á styrkleikalista FIFA: 69. sæti

Færeyska landsliðið árið 2013 (Mynd: wikipedia)

Færeyska liðið þurfti að byrja á því að vinna sér þátttökurétt í þessari undankeppni í gegnum sérstaka forkeppni. Þar kepptu 16 lið í fjórum riðlum um 5 laus sæti í undankeppninni.

Færeyjar voru í 2. styrkleikaflokki af fjórum og enduðu í riðli með Tyrklandi, Svartfjallalandi og Lúxemborg. Eitt lið í hverjum riðli var gestgjafi og fóru allir leikirnir í hverjum riðli hjá viðkomandi gestgjafaþjóð. Færeyjar voru gestgjafar í sínum riðli og voru því allir leikirnir spilaðir á Tórsvelli í Tórshavn. Spiluð var einföld umferð og fóru leikirnir fram 6.-11. apríl sl.

Færeyska liðið vann þar alla sína leiki, samanlagt með markatölunni 9-3. Markahæstu leikmenn liðsins í undankeppninni voru miðjumaðurinn Eyðvör Klakstein, sem spilar á Spáni, og framherjinn Heidi Sevdal sem spilar í Færeyjum. Þær skoruðu báðar 2 mörk.

Í lokaleiknum mættu færeysku stúlkurnar Tyrklandi. Tyrkland var í efsta styrkleikaflokknum og bæði lið höfðu unnið báða leiki sína á undan. Tyrkneska liðið var með hagstæðari markatölu sem nam 6 mörkum á þeim tímapunkti. Tyrkland skoraði líka fyrsta markið í leiknum, strax á 17. mínútu.

En færeyska liðið gafst ekki upp. Þeirra leikja- og markahæsti leikmaður í sögunni, Rannvá Andreasen, jafnaði leikinn á 36. mínútu. Rannvá þessi er fædd 1980 og byrjaði 15 ára gömul að spila fyrir meistaraflokk með KÍ Klaksvík. Hún er enn að spila með liðinu og hefur orðið færeyskur meistari með því á hverju ári síðan árið 2000. Á ferlinum hefur hún skorað 523 deildarmörk fyrir KÍ í 359 leikjum.

Eftir að reynsluboltinn Rannvá hafði jafnað þá tryggði ungur framherji, Milja Simonsen, Færeyingum sigur og þar með miða í þessa undankeppni.

Þær Rannvá og Milja eru báðar í leikmannahópi Færeyinga fyrir þessa viðureign gegn Íslandi, sem og bæði Eyðvör og Heidi.


Fyrri viðureignir

Þessi landslið hafa tvisvar sinnum mæst áður. Báðir leikirnir voru spilaðir á Íslandi í júní 1986 og voru þetta fyrstu landsleikir kvennaliðs Færeyja.

Fyrri leikurinn fór fram 25. júní 1986, á Kópavogsvelli. Íslenska liðið var mun sterkara og vann leikinn 6-0 eftir að hafa leitt 2-0 í hálfleik. Erla Þuríður Rafnsdóttir skoraði 2 mörk og Ásta B. Gunnlaugsdóttir, Vanda Sigurgeirsdóttir, Ásta María Reynisdóttir og Arna Katrín Steinsen skoruðu allar eitt mark.

Seinni leikurinn var rólegri en aftur var íslenska liðið öflugra og sigraði, í þetta skiptið 2-0. Ásta María kom Íslandi yfir á 11. mínútu og Erla Þuríður bætti við marki í seinni hálfleik.

Færeyska liðið á því enn eftir að skora mark gegn því íslenska, hvað þá meira. Það væri alveg ágætt að halda því bara þannig.


Dómarahornið

Aðaldómarinn í þessum leik heitir Sara Persson og kemur hún frá Svíþjóð. Hún var ekki einn af dómurunum á lokamóti EM í sumar en hefur þó töluverða reynslu af að dæma í stórmótum lands- og félagsliða.

Embed from Getty Images

Með Söru í þessum leik verða þær Sandra Österberg og Josefin Aronsson aðstoðardómarar, þær eru einnig frá Svíþjóð. Fjórði dómari í leiknum kemur frá Íslandi og heitir Bríet Bragadóttir.


Myndbandshornið

Rifjum aðeins upp síðustu undankeppni:

Mætum svo öll bláklædd á völlinn, styðjum liðið okkar og hvetjum það til dáða. Áfram Ísland!