Leikdagur: Ísland – Ungverjaland

Þá er það annar leikur Íslands á EM 2016. Fyrsti leikurinn var magnaður. Frábær skemmtun, frábær frammistaða og frábær úrslit. Nú er komið að því að mæta Ungverjum.

Ísland - Ungverjaland

Evrópukeppni karla í knattspyrnu í Frakklandi
Laugardagurinn 18. júní 2016
Klukkan 16:00 að íslenskum tíma, 18:00 að staðartíma

Ísland – Ungverjaland 

Völlur: Stade Vélodrome í Marseille, tekur 67.394 áhorfendur.
Hér er upphitunarpistill um völlinn.
Hér er upphitunarpistill um borgina Marseille.

Dómari: Sergei Karasev, rússneskur
Aðstoðardómarar: Nikolai Golubev og Tikhon Kalugin, frá Rússlandi
Sprotadómarar: Sergei Lapochkin og Sergei Ivanov, líka frá Rússlandi
4. dómari: Aleksei Kulbakov, frá Hvíta-Rússlandi

Sergei Gennadyevich Karasev (eða ?????? ??????????? ???????) er nýorðinn 37 ára gamall. Hann átti einmitt afmæli 12. júní. Hann kemur frá Moskvu, hefur verið dómari síðan 1995, dæmt í efstu deild síðan 2008 og verið alþjóðlegur FIFA-dómari síðan 2010.

Hann hefur dæmt leiki í undankeppnum EM og HM, hann hefur líka dæmt í EM undir 21 árs á síðasta ári. Hann hefur dæmt 3 leiki með landsliðum Ungverjalands. 2 þeirra voru að vísu hjá U19 liði Ungverjalands en auk þess dæmdi hann jafnteflisleik Ungverja og Grikkja í undankeppninni fyrir þetta Evrópumót.

Karasev hefur dæmt einn leik með Íslandi. Og hvílíkur leikur sem það var! Það var Sviss-Ísland í Berne í september 2013 í undankeppni HM, leikurinn sem endaði 4-4 þar sem Jóhann Berg skoraði eina fallegustu þrennu sem hefur sést á fótboltavelli.

Karasev hefur dæmt einn leik til þessa á mótinu, það var leikur Rúmeníu og SViss í A-riðli sem fram fór á Parc des Princes í París þann 15. júní. Sá leikur endaði 1-1 þar sem ein vítaspyrna var dæmd, 4 Rúmenar fengu gult spjald og 2 frá Sviss.

Upphitanirnar, Frakkland og Reykjavík

Tólfan í Frakklandi mun leggja undir sig Fanzone Marseille líkt og það gerði með sama svæði í Saint-Étienne. Það opnar klukkan 13:00 að staðartíma og þar er hægt að fá alls kyns veitingar sem koma stuðinu af stað.

FanzoneMarseille
Kort af Fanzone-inu í Marseille. Mynd fengin af Facebooksíðu Ríkislögreglustjóra

Tólfur í Reykjavík og nágrenni ætla að hittast á Dubliner klukkan 12:00 að staðartíma. Klukkan 14:00 verður svo haldið yfir á EM-torgið á Ingólfstorgi og stuðið sett í gang þar.

Ísland

Áfram Ísland!

Íslenska landsliðið

Íslenska liðið fyrir fyrsta leikinn á EM 2016
Íslenska liðið fyrir fyrsta leikinn á EM 2016

Stjórar: Lars og Heimir
Fyrirliði: Aron Einar
Leikjahæstur: Rúnar Kristins
Markahæstur: Eiður Smári

Staða á FIFA: 34
Staða á UEFA: 27
Gengi í síðustu 10: T T S T T T S T S J
Markatala í síðustu 10:

Ísland er mætt í lokamót EM hjá A-landsliðum karla. Þvílík gleði, þvílík stemning!

Setjum þetta bara í samhengi:
Í knattspyrnusögunni hafa 33 þjóðir spilað í lokakeppni þessa móts. Af öllum þeim þjóðum er Ísland eins og stendur eina þjóðin sem hefur aldrei tapað leik þar. Við höfum líka alveg trú á að þeir geti haldið þeirri tölfræði eitthvað lengur.

Ungverjaland

Þeir sem vilja lesa sitthvað um landið sem Ísland mætir í þetta skiptið geta lesið þennan upphitunarpistil um Ungverjaland.

Ungverska landsliðið

Gábor Király og félagar í Ungverjalandi í fyrsta leiknum á þessu EM
Gábor Király og félagar í Ungverjalandi (hvítu búningarnir) í fyrsta leiknum á þessu EM

Stjóri: Bernd Storck
Fyrirliði: Balázs Dzsudzsák
Leikjahæsti leikmaður í sögu liðsins: markvörðurinn Gábor Király, 104 leikir. Spilaði í síðasta leik liðsins, gegn Austurríki á EM.
Markahæsti leikmaður í sögu liðsins: Ferenc Puskás, 84 mörk í 85 landsleikjum á árunum 1945-56. Enginn núverandi leikmanna nær að komast inn á topp 10 listann yfir markahæstu leikmenn ungverska landsliðsins í gegnum tíðina. Markahæstur í núverandi hóp er Zoltán Gera með  24 mörk í 90 landsleikjum. Hann þarf 6 mörk í viðbót til að komast inn á topp 10.

Staða á styrkleikalista FIFA: 20. sæti
Staða á styrkleikalista UEFA: 20. sæti
Gengi í síðustu 10 landsleikjum: J J S T S S J J T S
Markatala í síðustu 10 landsleikjum: 12-10

Ungverjaland er núna að senda sitt A-landslið karla á lokamót EM í þriðja skiptið. Árið 1964 var Ungverjaland eitt fjögurra liða sem tók þátt í lokamótinu. Þar tapaði liðið fyrir Spánverjum og spilaði því um 3. sætið við Danmörk. Ungverjaland vann þann leik, 3-1 eftir framlengingu. Sá leikur var spilaður á Camp Nou en aðeins 3.869 áhorfendur horfðu á leikinn. Árið 1972 var Ungverjaland aftur eitt af 4 liðum í lokakeppninni. Aftur tapaði liðið undanúrslitaleiknum, í þetta skiptið gegn Sovétríkjunum. En nú náðu þeir ekki að vinna bronsið heldur töpuðu leiknum um þriðja sætið gegn Belgíu. Ungverjaland byrjaði svo EM 2016 mjög vel með flottum sigri á nágrönnunum í Austurríki, 2-0.

Ungverjaland hefur því spilað 5 leiki samtals á EM, unnið 2 en tapað 3. Markatala liðsins í lokakeppni EM er 7-6. Þá setti Ungverjaland eitt met í síðasta leik því markvörðurinn skrautlegi, Gábor Király, varð elsti leikmaðurinn til að spila leik í lokamóti EM. Hann var 40 ára og 74 daga gamall þegar hann spilaði gegn Austurríki. Við reiknum fastlega með því að hann slái metið um 4 daga í leiknum gegn okkar mönnum.

Viðureignin

Karlalið Íslands og Ungverjalands hafa mæst 10 sinnum áður á knattspyrnuvellinum. Fyrsta viðureignin var 4. maí 1988. Það var vináttuleikur í Ungverjalandi sem endaði 3-0 fyrir Ungverjana. Annar leikurinn var í september sama ár en í það skiptið á Laugardalsvellinum. 333 áhorfendur mættu á völlinn og sáu Ungverjaland vinna annan 3-0 sigurinn á árinu gegn íslenska liðinu.

Í undankeppninni fyrir HM ’94 lentu Ísland  og Ungverjaland saman í riðli 5. Í þeim sama riðli voru einnig Grikkland, Rússland, Lúxemborg og Júgóslavía. Júgóslavíu var þó vísað úr keppni af FIFA svo eftir stóð 5 þjóða riðill. Fyrst spiluðu liðin í Ungverjalandi, 3. júní 1992. Ísland vann þann leik, 2-1, með mörkum frá Þorvaldi Örlygssyni og Herði Magnússyni. Seinni leikur þessara liða fór fram í júní ári síðar, nánar tiltekið 16. júní 1993. Aftur vann Ísland, í þetta skiptið 2-0 með mörkum frá Eyjólfi Sverrissyni og Arnóri Guðjohnesen. Ísland endaði í 3. sæti riðilsins, sæti fyrir ofan Ungverjaland. Tvær efstu þjóðirnar fóru á HM.

Næsta stórmót á eftir því var EM 1996. Í undankeppni fyrir það mót lentu þessar þjóðir aftur saman í riðli, í riðli 3 ásamt Sviss, Tyrklandi og Svíþjóð. Í 3 skiptið á 4 árum mættust liðin í fótboltaleik í júní þegar þau spiluðu 11. júní 1995. 4.474 áhorfendur mættu á leikinn. Ungverjarnir komust yfir í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik skoruðu Guðni Bergsson og Sigurður Jónsson með stuttu millibili og tryggðu sigurinn. Þetta reyndist þó eini sigur Íslands í þessari undankeppni. Íslenska liðið fór til ungverjalands í nóvember 1995 og tapaði þar, 1-0. Það náði 1 sigri, 2 jafnteflum og 5 töpum í undankeppninni og hafnaði í neðsta sæti riðilsins. Ungverjar voru í næstneðsta sæti, 3 stigum á undan Íslandi.

Liðin spiluðu vináttuleik á Laugardalsvelli í september 2002. Ungverjar unnu þann leik, 2-0.

Fyrir HM 2006 lentu liðin aftur saman í riðli í undankeppninni. Voru þá í riðli 8 ásamt Króatíu, Svíþjóð, Búlgaríu og Möltu. Fyrri leikurinn var á útivelli, 8. september 2004, og endaði 3-2 fyrir Ungverjaland. Eiður Smári Guðjohnsen og Indriði Sigurðsson skoruðu mörk Íslands í leiknum. Seinni leikurinn var 4. júní 2005, fyrir framan 4.613 áhorfendur á Laugardalsvellinum. Eiður Smári Guðjohnsen kom Íslandi yfir en Zoltán Gera jafnaði úr vítaspyrnu. Ísland missti svo mann af velli á 55. mínútu þegar Ólafur Örn Bjarnason fékk sitt annað gula spjald og Gera skoraði annað mark úr vítaspyrnu. Kristján Örn Sigurðsson náði að jafna metin á 69. mínútu en Huszti skoraði sigurmark Ungverjanna á 74. mínútu.

Síðasti leikur liðanna var vináttuleikur á Puskás Ferenc vellinum í Ungverjalandi 10. ágúst 2011. Ungverjarnir skoruðu 2 mörk í hvorum hálfleik og unnu þann leik, 4-0. Einn af markaskorurum Ungverja þá er núverandi fyrirliði liðsins, Balázs Dzsudzsák.

Liðin hafa spilað 10 leiki, Ungverjaland unnið 7 og Ísland 3. Ungverjaland hefur skorað 21 mark en Ísland 10. Athyglisvert þó að 8 af 10 mörkum íslenska liðsins gegn Ungverjalandi hafa komið í júní.

Lars Lagerbäck hefur tvisvar mætt Ungverjalandi, það var með Svíþjóð í undankeppninni fyrir HM 2010. Svíarnir unnu báða leikina 2-1.

Miðjumaðurinn Rúnar Már Sigurjónsson á afmæli á leikdegi, 26 ára gamall. Bæði Ragnar Sigurðsson (30) og Ögmundur Kristinsson (27) eiga afmæli daginn eftir leik. Ungverski miðjumaðurinn Ádám Nagy varð 21 árs daginn fyrir leik.

Skemmtileg tilviljun að á leikdegi eru akkúrat 5 ár frá því Ísland vann Danmörk 3-1 á EM U21-liða í Danmörku. Meðal markaskorara Íslands í þeim leik voru Kolbeinn Sigþórsson og Birkir Bjarnason. Gylfi Þór Sigurðsson, Aron Einar Gunnarsson og Jóhann Berg Guðmundsson voru einnig í byrjunarliði Íslands í leiknum og Alfreð Finnbogason sat á bekknum ásamt fleiri góðum.

Peppmyndböndin

Ég er kominn heim, þvílík gæsahúð!