Vellirnir: Otkritie Arena

Þá er komið að síðasta tríóinu af upphitunarpistlum áður en stórmótið sjálft hefst. Fyrst voru það þjóðirnar, þá keppnisborgirnar og nú eru það vellirnir sem íslenska karlalandsliðið mun spila á þegar það keppir á Heimsmeistaramóti karlalandsliða í fótbolta. Ísland spilar sinn fyrsta leik 16. júní, í Moskvu.

Höfundur: Halldór Marteinsson

Otkritie Arena (Mynd: otkritiearena.ru)

Grunnupplýsingar

Nafn: Otkritie Arena (rússneska: ???????? ?????)
Þar sem nafnið á vellinum vísar í rússneska bankann Otkritie í auglýsingaskyni mun völlurinn bera nafnið Spartak Stadium á HM.
Áhorfendafjöldi: 45.360
Vallarflötur: 105 m x 68 m (sama stærð og á Laugardalsvelli
Vallaryfirborð: SISGrass grasblanda

Opnaði: 2014
Fjöldi leikja á HM 2018: 5 leikir. 4 leikir í riðlakeppninni og 1 í 16-liða úrslitum

Heimilisfang vallarins:
Volokolamskoye sh., 69, Moskva, Russia, 125424

Otkritie-völlurinn er fallegur (Mynd: Stadiumguide.com)

Aðeins meira um völlinn

Otkritie Arena/Spartak Stadium er staðsettur í Tushino, úthverfi í norðvesturhluta Moskvu. Til ársins 1960 var Tushino sérstakur og sjálfstæður bær en hefur eftir það verið hluti af borginni sjálfri. Þar sem völlurinn stendur núna var áður flugvöllur en núna er þarna íbúðahverfi.

Þrátt fyrir að Spartak Moskva hafi verið stofnað árið 1922 og löngum verið eitt sigursælasta félagslið Rússlands þá hafði félagið aldrei heimavöll. Upp úr 1990 fóru ráðamenn innan félagsins að leggja drög að því að byggja slíkan heimavöll. Það gekk þó erfiðlega að koma slíkum plönum almennilega í gang. Árið 2005 keypti félagið þó þetta landsvæði í Tushino þar sem flugvöllurinn var.

Það tafðist þó enn eitthvað að koma framkvæmdum í gang. Ein af ástæðunum fyrir því var að þáverandi hönnun leikvangsins þótti alltof leiðinleg og ófrumleg. Það var sett meira fútt í hönnunina en þá skall efnahagskreppan á árið 2008. Sumarið 2010 fóru framkvæmdir þó loks á fullt skrið.

Völlurinn var svo opnaður í september 2014 þegar Spartak Moskva tók á móti Rauðu stjörnunni frá Belgrad. Lauk þeim leik með 1-1 jafntefli, þar sem vinstri bakvörðurinn Dmitri Kombarov hjá Spartak skoraði fyrsta markið í sögu vallarins, eftir aukaspyrnu. Spartak hefur síðan þá bætt einum rússneskum deildartitli í veglegt titlasafn sitt.

Það þekkist víða að knattspyrnufélög setji styttur fyrir framan leikvanga sína, sem minnisvarða um eitthvað merkilegt sem tengist sögu félagsins. Spartak lætur sér ekki nægja að setja styttu fyrir utan leikvanginn, félagið er líka með styttur innan leikvangsins og við grasvöllinn sjálfan.

Spartakus (Mynd: Football-Stadiums.co.uk)

Fyrir utan leikvanginn er 24 metra há stytta af rómverska skylmingarþrælnum Spartakusi. Félagið heitir eftir honum.

Innan leikvangsins eru hins vegar styttur af Starostin-bræðrunum fjórum sem stofnuðu félagið árið 1922.

Starostin-bræðurnir (Mynd: Football-Stadiums.co.uk)

Starostin-bræðurnir, þeir Nikolai, Aleksandr, Andrey og Pyotr, voru ekki bara í forsvari fyrir stofnun félagsins heldur voru leiðandi afl í störfum félagsins mestan part 20. aldarinnar. Sérstaklega á það við um elsta bróðurinn, Nikolai Starostin.

Nikolai var flinkur knattspyrnumaður á sínum ferli, seinna lunkinn þjálfari og svo einnig góður í störfum á bak við tjöldin fyrir félagið. Þeir bræður fengu þó að kenna á pólitíkinni, sem blandaði sér inn í íþróttirnar eins og flest annað. Spartak, Dynamo og CSKA eru allt forskeyti sem voru notuð á fleiri en eitt íþróttafélag sem var stofnað á þessum tímum, þau höfðu líka töluverða merkingu á bak við sig. Lið með CSKA fremst voru stjórnuð af rússneska hernum á meðan Dynamo-liðin voru undir stjórn rússnesku leynilögreglunnar. Spartak-liðin voru eins konar mótsvar við því, það voru lið fólksins.

Eins og gefur að skilja voru þeir sem fóru með völdin ekkert endilega sáttur við að lið fólksins væri eitthvað að ybba sig, sérstaklega ekki þegar þau fóru svo að veita þeim alvöru samkeppni um titla, jafnvel að vinna afgerandi sigra á þeirra liðum. Það eitt og sér skapaði þeim sína óvini, enda fór svo að þeir voru handteknir fyrir litlar sakir og dæmdir í 10 ára þrælkunarvinnu. Á þeim tíma voru þeir þó orðnir þjóðþekktir fyrir knattspyrnuhæfileika sína og náðu að gera sér fangelsisvistina bærilegri með knattspyrnuiðkun og -þjálfun. Að lokum komust þeir svo aftur til Moskvu og gátu haldið áfram að vinna fyrir sitt félag.

Sætaskipan á vellinum

Fyrsti ósigur Spartak á þessum nýja heimavelli sínum kom sunnudaginn 8. mars 2015, þegar liðið steinlá 1-3 gegn Krasnodar í rússnesku úrvalsdeildinni. Okkar maður, sykurinn sjálfur, Ragnar Sigurðsson, var auðvitað á sínum stað í hjarta varnarinnar hjá Krasnodar.

SISGrass grasblandan

SIS knattspyrnuvallafyrirtækið kemur frá Írlandi og hefur þróað aðferð við að blanda saman náttúrulegu grasi og gervigrasi. SISGrass formúlan þeirra er 95% náttúrulega gras og verður notuð á 6 af 12 keppnisvöllum HM í sumar, þar á meðal báðum völlunum í Moskvu. Þetta verður í fyrsta skipti sem leikir á HM karla í fótbolta eru spilaðir á völlum sem ekki eru með 100% náttúrulegt gras.

Fanzone/Fan fest

Mynd: FIFA

Þrátt fyrir að leikið sé á tveimur völlum í Moskvu þá verður aðeins eitt Fan Fest í borginni. Það verður á Vorobyovy Gory, eða Spörvahæð, við Lomonosov ríkisháskólann í Moskvu.

Ríkisháskólinn er stærsti og elsti háskólinn í Rússlandi, stofnaður árið 1755. Á staðnum er fagurt útsýni yfir borgina og Luzhniki-völlinn en það er þó töluverður spotti þaðan og á Spartak-/Otkritie-völlinn.

Stemningin

Það sem við Tólfur spyrjum okkur auðvitað fyrir svona leik er: er hægt að mynda almennilega stemningu á þessum velli?

Það er svo sannarlega hægt að vera með læti. Eins og sést á eftirfarandi myndbandi:

Leikirnir á HM 2018

1) Laugardagurinn 16. júní 2018, klukkan 13:00 að íslenskum tíma (16:00 að staðartíma)
Argentína – Ísland, í D-riðli

2) Þriðjudagurinn 19. júní 2018, klukkan 12:00 að íslenskum tíma (15:00 að staðartíma)
Pólland – Senegal, í H-riðli

3) Laugardagurinn 23. júní 2018, klukkan 12:00 að íslenskum tíma (15:00 að staðartíma)
Belgía – Túnis, í G-riðli

4) Miðvikudagurinn 27. júní 2018, klukkan 18:00 að íslenskum tíma (21:00 að staðartíma)
Serbía – Brasilía, í E-riðli

5) Þriðjudagurinn 3. júlí 2018, klukkan 18:00 að íslenskum tíma (21:00 að staðartíma)
Sigurvegar H-riðils – 2. sæti í G-riðli, í 16-liða úrslitum

Mynd: Mos.ru