Vellirnir: Volgograd Arena

Nú þegar þessi pistill birtist á Tólfusíðunni er aðeins vika í að Ísland spili sinn fyrsta leik í lokakeppni heimsmeistaramóts í knattspyrnu. Hvílík gargandi snilld að þetta sé bara að verða að veruleika!

Það er komið að næstsíðasta upphitunarpistlinum fyrir HM í Rússlandi, það er komið að vellinum þar sem Ísland spilar gegn Nígeríu. Við minnum hins vegar á að Ísland spilar á mánudaginn gegn Slóveníu í undankeppni kvennalandsliða fyrir HM í Frakklandi. Þær þurfa á góðum stuðningi að halda og við hvetjum ykkur öll til að mæta.

Höfundur: Árni Þór Súperman

Volgograd Arena (Mynd: FIFA)

Grunnupplýsingar

Nafn: Volgograd Arena (rússneska: ????????? ?????)
Áhorfendafjöldi : 45.568
Vallarflötur : 105 x 68 m (sama stærð og Laugardalsvöllur)
Vallaryfirborð : Nátturulegt gras

Opnaði: 2018
Fjöldi leikja á HM 2018 : 4, allir í riðlakeppninni
Leikur Íslands: 22. júní kl. 18:00 að staðartíma (15:00 á Íslandi)

Heimilisfang vallarins:

pr-kt. V.I. Lenina, 76, Volgograd, Volgogradskaya oblast’, 400005, Rússland.

Mynd: Wikipedia

Aðeins meira um völlinn

Leikvangur þessi er svo nýr að það er í raun ekki mikil saga í kringum hann. Rotor Volgograd, sem er knattspyrnulið borgarinnar, flutti inn í nýju heimkynnin 21. apríl síðastliðinn. Þá tóku heimamenn í Rotor á móti FC Luch-Energiya þar sem heimamenn unnu 4-2. Framherjinn Khyzyr Appayev er fyrsti formlegi markaskorari vallarins. Rotor Volgograd er félag sem hefur alveg séð betri daga, eru í dag í rússnesku annarri deildinni en eru að vona að með bættri aðstöðu fari klúbburinn að rísa upp á ný.

Klúbburinn Rotor Volgograd er þó frægastur fyrir það að hafa slegið Manchester United út úr UEFA bikarkeppninni árið 1995. Fyrri leikurinn, sem spilaður var í Volgograd, fór 0-0 en sá seinni endaði 2-2. Það var enginn annar en Peter Schmeichel sem skoraði jöfnunarmarkið í uppbótartíma í þeim leik en það dugði ekki United mönnum og Rotor fór áfram á útivallarmarkareglunni.

Bygging vallarins hófst árið 2013 en það varð smá seinkun á framkvæmdum  um mitt ár 2014 þegar gamlar sprengjur úr seinni heimsstyrjöldinni fundust í jarðveginum við gröft. Hreinsun og losun sprengjanna gekk þó áfallalaust fyrir sig. Fyrir ykkur sem ekki vitið þá varð ein blóðugusta orrusta seinni heimsstyrjaldarinar í þessari borg. Við í Tólfunni skrifuðum nánar um þá sögu í borgarpistlinum um Volgograd. Staðsetning leikvangsins er í grennd við Mamayev Kurgan hlíðina og er því Móðurlandið kallar styttan í frábæru útsýni frá Volgograd Arena. Það má segja að hún standi yfir mannvirkinu.

Af 45.568 sætum leikvangsins eru 2.280 sæti í fjölmiðlaboxinu, 640 sæti í VIP boxum, 460 sæti fyrir hreyfihamlaða. Það eru 42 lyftur á vellinum, þar af 24 sérstaklega gerðar fyrir hreyfihamlaða.

Fanfest

Mynd: FIFA

Staðsetning Fanfest Volgograd er á Bakka 62. hersveitarinnar eða The 62nd Army Embankment. Það er nokkurs konar minningargarður eða torg sem liggur meðfram ánni Volgu, sem borgin er kennd við. Pláss er fyrir 15.000 manns á fanfestinu þar sem hægt verður að horfa á leiki HM á risaskjám, ýmis skemmtiatriði verða í boði, tónleikar ásamt því að hægt verður að næra sig eitthvað og svala þorstanum. 3,3 kílómetrar eru frá Fanfestinu til Volgograd Arena, leiðin liggur einfaldlega norður meðfram ánni Volgu þar til þú kemur að leikvanginum.

Leikirnir á HM

1) Túnis – England
18. júní kl. 21:00 að staðartíma (18:00 á Íslandi)

2) Nígería – ÍSLAND
22. júní kl. 18:00 að staðartíma (15:00 á Íslandi)

3) Sádí Arabía – Egyptaland
25. júní kl. 17:00 að staðartíma (14:00 á Íslandi)

4) Japan – Pólland
28. júní kl. 17:00 að staðartíma (14:00 á Íslandi)

Volgograd Arena og Móðurlandið kallar (Mynd: TheFootballStadiums.com)