Leikdagur: Ísland – Slóvenía

Við fengum tvo heimaleiki hjá strákunum í byrjun júní í undirbúningi þeirra fyrir HM í Rússlandi, sem er rétt að hefjast. En nú er komið að stelpunum okkar og það er alvöru leikur framundan. Fyrir þennan leik er Ísland í 2. sæti en á þennan leik inni á Þýskaland, sem er í 1. sætinu eins og er. Sigur í þessum leik kemur Íslandi í efsta sætið og næsti leikur á eftir þessum er einmitt gegn Þýskalandi í september. Það er því mikið undir og mikilvægt að láta sjá sig á vellinum og láta heyra almennilega í sér.

A-landslið kvenna,
undankeppni fyrir HM í Frakklandi 2019.
6. leikur Íslands í 5. riðli,
mánudagurinn 11. júní 2018,
klukkan 18:00.

Ísland – Slóvenía

Völlur: Laugardalsvöllurinn okkar.

Fyrir EM í Hollandi settum við áhorfendamet í leik hjá kvennalandsliðinu þegar 7.521 áhorfandi mætti í Laugardalinn til að sjá Ísland mæta Brasilíu. Í fyrsta leik þessarar undankeppni mættu svo 2.113 áhorfendur sem var töluverð dýfa frá síðustu heimaleikjum. Meðaláhorfendafjöldinn á heimaleikina í undankeppni EM 2017 var 4.947 áhorfendur. Það var töluverð aukning frá undankeppninni þar áður, fyrir HM 2015. Í þeirri undankeppni var meðaláhorfendafjöldinn 1.520 manns per heimaleik, þar af voru 3 leikir þar sem innan við 800 áhorfendur mættu.

Við viljum sjá miklu fleiri mæta á þennan leik en mættu á leikinn gegn Færeyjum í fyrstu umferðinni, við viljum að meðaláhorfendafjöldinn verði nær undankeppni EM 2017 en undankeppni HM 2015. Helst viljum við auðvitað slá þeim fjölda við, við stefnum enn að því að KSÍ þurfi að hafa báðar stúkur opnar sama hvort kvenna- eða karlalandsliðið er að spila. Við viljum fylla stúkurnar og hafa stemningu og fjör. We can do this!

Þær eiga skilið góðan stuðning (Mynd: Hafliði Breiðfjörð/Fótbolti.net)

Dómari: Shona Shukrula frá Hollandi

Veðurspáin: Það spáir 9-10 stiga hita allan daginn og fram á kvöld, alskýjuðu og það er mjög líklegt að það muni allavega eitthvað rigna yfir leiknum. Það verður þó ekki hvasst, bara 2-3 m/s vestanátt. Gæti verið verra.


Dagskráin

Stuðningsmannasvæðið verður á sínum stað á bílastæðunum fyrir framan Laugardalsvöllinn okkar. Það opnar klukkan 16:00 og þar verður ýmislegt sniðugt um að vera fyrir stundvísa stuðningsmenn.

Við hvetjum ykkur öll til að mæta tímanlega í fjörið fyrir utan völlinn og sömuleiðis að mæta snemma í stúkuna til að vera tilbúin í þjóðsöng og aðra söngva.

Að sjálfsögðu verður Ölver opinn fyrir leik, líkt og aðra leikdaga. Það verður opið frá kl. 10:00 og þar verður hægt að fá sér góða hressingu og góða stemningu til að koma sér í gírinn fyrir leikinn.

Hérna er tengill á viðburðinn á Facebook.


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 19. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: S S J T J T J* J S S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 22-8
*sigur eftir vítaspyrnukeppni

Freyr Alexandersson er sem fyrr þjálfari liðsins en það verður breyting í fyrirliðastöðunni að þessu sinni. Sara Björk og Margrét Lára eru hvorugar með að þessu sinni, munar um minna. Það verður fróðlegt að sjá hver fær bandið í staðinn, þær eru nokkrar sem koma sterklega til greina. Sif Atla, Gunnhildur Yrsa og Guðbjörg eru bæði reynsluboltar og miklir leiðtogar, Freyr sagði í viðtali í lok maí að líklega færi bandið á einhverja af þeim. Við vitum að þær myndu allar bera það vel.

Embed from Getty Images

Íslenska liðið hefur nú lokið fimm leikjum í þessari undankeppni fyrir HM í Frakklandi, þar af eru allir fjórir útileikirnir í keppninni að baki. Þrír leikir eru eftir og þeir verða allir spilaðir á heimavelli. Það er ansi góð staða.

Eins og áður hefur komið fram mun Sara Björk Gunnarsdóttir missa af þessum leik vegna meiðsla sem hún hlaut í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Það er ansi stórt skarð hoggið í íslenska hópinn. Wolfsburg, eitt besta félagslið heims í kvennafótbolta, fann gríðarlega mikið fyrir því að missa hana af velli. Ef þýsku deildar- og bikarmeistararnir, næstbesta lið Evrópu, finna fyrir því þá finnur íslenska landsliðið líka fyrir því.

En það eru þó þrír jákvæðir punktar sem hægt er að hugga sig við í þessari stöðu:

  1. Meiðsli Söru eru ekki eins alvarleg og þau litu mögulega út fyrir að vera í fyrstu. Hásinin er ekki slitin, sem hefði þýtt nokkurra mánaða fjarveru, heldur ætti Sara að ná leikjunum með landsliðinu í haust.
  2. Hópur íslenska landsliðsins er alltaf að stækka og verða betri. Við höfum séð þær og þjálfarahópinn vinna vel í gegnum fjarveru lykilleikmanna upp á síðkastið.
  3. Þetta var vissulega í lok maí, sem var bagalegt og nokkuð nálægt leiknum en samt sem áður var það mikill fyrirvari á þessu að þjálfarateymið ætti að geta fundið lausnir á þessu og æft þær vel með liðinu fyrir leik.

Embed from Getty Images

Sara Björk hefur spilað hverja einustu mínútu af 450 mínútum Íslands í undankeppninni til þessa. Það sama hafa Glódís Perla Viggósdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir gert. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir (426), Hallbera Gísladóttir (416) og Elín Metta Jensen (289) hafa tekið þátt í öllum 5 leikjum liðsins í undankeppninni en ekki spilað allar mínúturnar.

Ísland hefur skorað 19 mörk í undankeppninni til þessa. Aðeins Þýskaland (28), Belgía (25), England (20) og Holland (20) hafa skorað fleiri mörk í keppninni. Öll þau lið hafa þó leikið sex leiki í keppninni á meðan Ísland hefur spilað fimm.

Embed from Getty Images

Markahæst íslenska liðsins er Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, með 4 mörk. Hún er ein af 17 leikmönnum í undankeppninni sem hefur skorað 4 mörk, aðeins 7 leikmenn hafa skorað fleiri mörk. Markahæst í keppninni er hin belgíska Janice Cayman, leikmaður Montpellier í Frakklandi, með 7 mörk. Elín Metta, Dagný Brynjarsdóttir og Fanndís Friðriksdóttir hafa svo allar skorað 3 mörk.

Stoðsendingahæst hjá Íslandi eru Elín Metta og Hallbera, með 4 stoðsendingar hvor. Agla María er síðan með 2 og þær Dagný, Sara Björk, Ingibjörg og Svava Guðmunds eru með 1 stoðsendingu hver. Sex leikmenn í undankeppninni hafa náð 4 stoðsendingum og aðeins 5 leikmenn hafa náð að gera fleiri stoðsendingar í keppninni. Sú stoðsendingahæsta er hin spænska Jennifer Hermoso, sem spilar fyrir PSG.

Embed from Getty Images

Guðbjörg Gunnarsdóttir hefur fengið 12 skot á sig sem hafa hitt rammann. Þar af hefur hún náð að verja 9 þeirra en aðeins fengið á sig 3 mörk. Sandra Sigurðardóttir stóð svo í rammanum í síðasta leik, hélt þar hreinu og varði 2 skot frá Færeyingum.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða leikmaður kemur inn í stað Söru og hvort Freyr ákveði að breyta um leikkerfi til að bæta upp fyrir það að hana vantar inn á miðjuna. Það er pressa á stelpunum fyrir þennan leik því hann verður að vinnast til að halda frumkvæðinu í riðlinum. En þetta íslenska lið á alltaf að hafa bæði gæðin og leikreynsluna til að klára þetta verkefni.


Slóvenía

Staða á styrkleikalista FIFA: 62. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: T J T J T T S T T S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 17-27

Eina liðið sem Slóvenía hefur unnið í síðustu 10 leikjum eru Færeyjar, tvisvar hafa færeysku frænkur okkar tapað fyrir þeim á síðustu mánuðum. 9 af þeim 17 mörkum sem Slóvenía hefur skorað í síðustu 10 komu gegn Færeyjum. Það er sömuleiðis eina liðið sem Slóvenía hefur haldið hreinu gegn í 13 leikjum, þær náðu því í báðum leikjunum gegn færeyska liðinu.

Þjálfari liðsins er Borut Jarc og fyrirliðinn er Mateja Zver, fyrrverandi leikmaður Þórs/KA sem spilar nú með SKN St. Pölten í austurrísku úrvalsdeildinni.

Embed from Getty Images

Þessi lið voru líka saman í riðli í undankeppni EM í Hollandi. Þau mættust á Laugardalsvelli í september árið 2016, og við gerðum leikdagspistil fyrir þann leik sem hægt er að finna hér. Ísland vann þann leik með 4 mörkum gegn engu, eftir að hafa unnið fyrri leikinn með 6 mörkum gegn engu. Ísland vann einnig fyrri leikinn í þessari undankeppni og hefur því unnið 4 leiki af þeim 5 sem liðin hafa spilað. Slóvenía vann fyrsta leikinn, í undankeppni EM 2009, 2-1 á heimavelli. En það eru einu 2 mörkin sem Slóvenía hefur náð að skora gegn Íslandi, Ísland hefur á móti skorað 18 gegn Slóveníu.

Slóvenía hefur aldrei komist á lokamót, hvorki á HM né EM. Það næsta sem liðið komst því var í undankeppninni fyrir EM 2009. Þá var Slóvenía einmitt líka með Íslandi í riðli og vann þar sinn heimaleik gegn okkar konum. Að auki náðu þær slóvensku að vinna annan af leikjunum sínum gegn Serbíu og báða gegn Grikklandi. Frakkland vann þann riðil, Ísland endaði í 2. sæti og Slóvenía í 3. sæti. Í þessari undankeppni voru 6 riðlar. Liðin í efsta sæti fóru beint á lokamótið, öll liðin í 2. sæti og 4 stigahæstu liðin í 3. sæti fóru í umspil. Slóvenía var í þeim hópi en tapaði báðum umspilsleikjum sínum, gegn Úkraínu. Samanlögð úrslit í því einvígi voru 0-5. Síðan þá hefur Slóvenía verið töluvert frá því að komast áfram.

Og það verður ekki heldur í þetta skipti, það er þegar orðið ljóst að Slóvenía á ekki séns á svo miklu sem umspilssæti. Slóvenía er sem stendur í 4. sæti riðilsins eftir 6 leiki, með 6 stig eftir tvo sigurleiki gegn neðsta liðinu í riðlinum, Færeyjum. Slóvenía hefur skorað 9 mörk í riðlinum, öll gegn Færeyjum. Í hinum 4 leikjunum hafa þær fengið á sig 16 mörk.

Embed from Getty Images

Sonja Zevnik, markmaður úr slóvenska liðinu ZNK Radomlje, stóð vaktina í markinu í fyrsta leik Slóveníu í undankeppninni. Sá leikur var á útivelli gegn Þjóðverjum og þótt Zevnik næði að verja 6 þýskar marktilraunir þá kom það ekki í veg fyrir 0-6 tap.

Eftir það var skipt um aðalmarkmann hjá Slóveníu og hefur hin bráðunga Zala Mersnik staðið vaktina í hinum leikjunum 5. Hún var í markinu í síðasta leik, 4-0 sigur í Færeyjum. Það hitti einmitt þannig á að þann leik spilaði hún á 17 ára afmælisdag sinn, hún fæddist 7. júní 2001. Hún hefur fengið á sig 10 mörk í þessum 5 leikjum en hún hefur líka varið 20 bolta, þar á meðal 10 í seinni leik Slóvena gegn Þýskalandi og 4 þegar Ísland heimsótti Slóveníu.

Lara Prasnikar er markahæst með 4 mörk og fyrirliðinn Mateja Zver hefur skorað 2 og lagt upp 2, hún er næstmarkahæst og stoðsendingahæst hjá Slóveníu.


Dómarahornið

Shona Shrukula frá Hollandi sér um að dæma þennan leik. Shrukula fæddist árið 1991 og var byrjuð að dæma í hollensku úrvalsdeildinni um tvítugt. Hún hefur líka verið að dæma töluvert á alþjóðlegum vettvangi, er byrjuð að dæma í neðri deildum í karlaboltanum og stefnir á að dæma í efstu deild bæði hjá konum og körlum.

Embed from Getty Images

Shrukula er einnig útskrifuð úr lögfræði og vinnur meðfram knattspyrnudómgæslu hjá saksóknaraembættinu í Haarlem í Amsterdam.

Henni til halds og trausts verða landar hennar Franca Overtoom og Diana Snoeren sem aðstoðardómarar og Bríet Bragadóttir verður fjórði dómarinn.


Áfram Ísland!

Það er alveg ljóst að Ísland á að vinna þennan leik. Það þýðir samt ekki að þær þurfi ekki stuðning til þess. Enn og aftur hvetjum við ykkur til að mæta og styðja liðið. Hjálpum þeim að komast til Frakklands á HM.

Hér er smá pepp:

Síðasti leikur gegn Slóveníu:

Íslensku landsliðsstelpurnar í fótbolta hafa talað um að þær noti íslensku krossfitstelpurnar óspart sem fyrirmyndir, innblástur og hvatning til að halda áfram og ná lengra. Það er auðvelt að sjá hvers vegna:

#Dóttir