Mótherjinn: Sviss

Núna eru aðeins 15 dagar í að EM í Hollandi hefjist, og aðeins 19 dagar í að íslenska liðið spili sinn fyrsta leik. Áfram höldum við með upphitunarpistlana. Áður voru komnir pistlar um EM hópinn hjá Íslandi, um mótið sjálft og svo nú síðast um Frakkland, fyrstu mótherja okkar kvenna á mótinu. Og nú er komið að þeim næstu; Sviss.

Svissneski fáninn er annar af tveimur þjóðfánum í heiminum sem er ferningur í laginu (hinn er þjóðfáni Vatíkansins) Mynd: Wikipedia

Sviss (Confoederatio Helvetica)

Höfuðborg: engin eiginleg höfuðborg er í landinu en Bern er það sem kallast sambandsborg (þýska: Bundesstadt) og er óformlega höfuðborg landsins.
Stærð landsins: 41.285 km² (40,1% af stærð Íslands)
Íbúafjöldi: 8.401.120 (áætlað)

Opinber tungumál: þýska, franska, ítalska, retórómanska

Lönd sem liggja að Sviss: Ítalía, Frakkland, Þýskaland, Austurríki og Liechtenstein

Sviss er landlukt ríki, liggur hvergi að sjó, og það er sambandsríki með beint lýðræði. Landið varð til þegar mismunandi héruð ákváðu að mynda pólitískt samband. Núna eru 26 mismunandi kantónur (stjórnsýslueiningar, ekki ósvipað sýslum) sem mynda sambandsríkið Sviss. Kantónurnar eru mjög sjálfstæðar, t.d. er sérstakt þing í hverri kantónu og mjög beint lýðræði þar sem íbúar kjósa um flest stærri mál. Tungumálanotkun afmarkast yfirleitt af kantónum en í sumum borgum (t.d. Freiburg/Fribourg og Biel/Bienne) eru bæði þýska og franska opinber tungumál.

FC Zürich Frauen, sigursælasta kvennalið í svissneskum fótbolta. (Mynd: FCZ.ch)

Í Sviss er bæði deildar- og bikarkeppni í fótboltanum. Efsta deild kvenna heitir Nationalliga A og er rekin af svissneska knattspyrnusambandinu. Hún var stofnuð árið 1970 og hefur farið fram á hverju ári síðan þá. Síðustu ár hefur formið á deildinni verið þannig að 10 lið taka þátt í tveimur umferðum. Að þeim loknum spila 8 efstu liðin eina lokaumferð sem sker úr um hvaða lið verður meistari en neðstu tvö liðin keppa við efstu tvö liðin í Nationalliga B um sæti í efstu deild.

Þetta er þó að breytast núna. Á nýafstöðnu tímabili tóku bara sex lið þátt í lokaumferðinni því frá og með næsta tímabili mun liðum í efstu deild fækka úr 10 í 8. Svissnesska knattspyrnusambandið telur að þessi breyting geti aukið samkeppnishæfni deildarinnar.

Mynd: FC Neunkirch

Ríkjandi meistari í Nationalliga A er liðið FC Neunkirch frá smábænum Neunkirch í Schaffhausen kantónunni, norðarlega í Sviss. Það búa aðeins rúmlega 2000 manns í Neunkirch. Knattspyrnufélagið var upphaflega stofnað árið 1963 en kvennalið félagsins var ekki sett á fót fyrr en árið 2002. Liðið hóf þátttöku í deildarkeppninni árið 2006 og var komið upp í efstu deild árið 2013 eftir að hafa unnið sig upp um fjórar deildir á sjö árum. Á fyrsta tímabilinu í efstu deild endaði liðið í 4. sæti, árið eftir í 3. sæti, síðan 2. sæti og loks varð liðið meistari núna í vor. Þannig náði liðið að skáka stórliðinu FC Zürich Frauen sem hafði unnið deildina 5 tímabil í röð og 7 sinnum á síðustu 8 tímabilum á undan þessu. Auk þess að vinna deildina náði FC Neunkirch líka að vinna svissneska bikarinn, vann þar einmitt FC Zürich í úrslitaleik eftir vítaspyrnukeppni. Nokkrum dögum eftir að liðið kláraði tvennuna tilkynnti forseti félagsins hins vegar að FC Neunkirch þyrfti að draga kvennaliðið sitt úr deildarkeppninni vegna of mikils kostnaðar. Karlalið FC Neunkirch spilar í 3. Liga, sem er sjöunda efsta deild í Sviss.

Neunkirch var töluvert gagnrýnt fyrir það að leggja lítið upp úr yngri flokka starfi og einnig að spila lítið á svissneskum leikmönnum. Það eru einhverjir svissneskir leikmenn sem spiluðu með Neunkirch en einnig voru þar leikmenn frá Slóvakíu, Portúgal, Austurríki, Englandi, Ítalíu, Kanada, Bandaríkjum, Spáni, Kýpur, Þýskalandi og Króatíu. Allavega ein úr liðinu mun spila á EM því portúgalski varnarmaðurinn Mónica Mendes er í landsliðshóp Portúgala. Lokahópur Sviss verður ekki tilkynntur fyrr en 3. júlí en hann verður líklega frekar skipaður leikmönnum úr FC Zürich en FC Neunkirch. FC Zürich er raunar með virkilega flott starf í gangi, U-21 lið félagsins spilar í Nationalliga B og hefur endað í 1. og 2. sæti í þeirri deild síðustu tvö tímabil. Vegna reglna um yngri lið á liðið hins vegar ekki rétt á að spila um sæti í Nationalliga A (svipaðar reglur eru í gangi með varalið félaga á Spáni). Besti árangur FC Zürich í Meistaradeild Evrópu er að komast í 16-liða úrslit tímabilið 2013-14.

Menningin

Svissneskar bókmenntir eiga sér langa sögu. Lengi framan af voru þýskumælandi kantónur í meirihluta í sambandsríkinu og bókmenntaflóran endurspeglaði það, elstu bókmenntirnar eru að miklu leyti á þýsku. En þeim frönskumælandi fjölgaði með tímanum, bæði kantónum og bókum.

Tveir svissneskir rithöfundar hafa fengið bókmenntaverðlaun Nóbels, fyrst var það Carl Spitteler árið 1919 og svo Hermann Hesse árið 1946. Spitteler var þýskumælandi ljóðskáld sem fékk Nóbelsverðlaunin ekki síst fyrir ljóðabálk sinn Der Olympische Frühling (e. The Olympic Spring). Hesse fæddist í Þýskalandi en fluttist til Sviss og gerðist svissneskur ríkisborgari. Hann skrifaði ljóð, smásögur, skáldsögur, sjálfsævisögur auk þess sem hann málaði.

Johanna Spyri, höfundur Heiðu (Mynd: Wikipedia)

Svissneskar bókmenntir, líkt og aðrar menningarafurðir í Sviss, eru mjög fjölbreyttar eftir tungumálasvæðum og kantónum en eiga þó til að nýta svissneska náttúru sem innblástur. Ekki síst fjöllin, vötnin og dalina sem einkenna landið. Þaðan kemur einmitt þekktasta sögupersónan sem kemur frá landinu, stúlkan Heiða úr samnefndum barnabókum eftir Johanna Spyri. Spyri nýtti sér eigið umhverfi þar sem hún bjó í svissnesku Ölpunum til að skapa söguveröld fyrir Heiðu, unga stúlku sem þarf að flytja upp í fjöll til afa síns. Heiða kom fyrst út á bókarformi árið 1881 og hefur síðan verið þýdd á yfir 50 tungumál. Bókin er meðal söluhæstu bóka allra tíma í heiminum, yfir 50 milljón eintök hafa selst af bókinni og er hún langvinsælasta bókin sem komið hefur frá Sviss.

Sagan af Heiðu hefur oftsinnis verið kvikmynduð. Síðast árið 2015 kom út í Sviss leikin mynd eftir sögunni, sem heitir einfaldlega Heidi. Þessa mynd er einmitt hægt að sjá í völdum kvikmyndahúsum á Íslandi þessa dagana.

Matarboðið

Þegar kemur að því að halda öflugt matarboð með svissnesku þema er tvennt sem þarf aðallega að hafa í huga: ostar og súkkulaði! Það er það sem gjörsamlega neglir svissneska stemningu. Ostar og súkkulaði, bara nógu helvíti mikið af því!

Ostarnir steinliggja sem forréttir. Sérstaklega ef það er hægt að finna sér Emmental og Gruyère osta, það eru tveir af vinsælustu ostum Sviss. Þetta eru ostar sem Svisslendingar borða sjálfir mikið af og flytja einnig mikið út til annarra landa. Báðir ostarnir eru kenndir við staðina sem þeir koma frá, dalina Emmental og Gruyère í miðvesturhluta Sviss. Báðir ostarnir eiga sér mjög langa sögu og aðferðirnar eru vel þróaðar og standa alltaf fyrir sínu.

Það má líka skella í líklega klassískasta, svissneska réttinn af þeim öllum og bjóða upp á fondue. Fondue er góður partýréttur, þar sem ostar og vín er látið sjóða saman í góðum fonduepotti og svo dýfa allir brauðbitum, eða öðru  ofan í blönduna með þar til gerðum fondue göfflum. Helstu reglurnar eru að það má ekki dýfa bitanum tvisvar í pottinn, ekki borða beint af gafflinum heldur setja á disk og ef einhver tapar sínum brauðbita í pottinum þá skuldar viðkomandi umgang af góðum drykk.

Gott fondue partý (Mynd: Forkly)

Hér má sjá klassíska uppskrift að fondue. Flest í uppskriftinni er illa basic en kannski stoppa einhverjir við kirsch. Það er kirsuberjabrandí. Það á uppruna sinn að rekja til Svartaskógar í Þýskalandi en barst þaðan yfir til Sviss og í svissneska matarmenningu. Það er líka framleitt töluvert af kirsch í Sviss. Eini drykkurinn frá Sviss sem hægt er að kaupa í Vínbúðum hérlendis er einmitt Dettling Reserve Kirsch. Fyrir utan að sulla þessu í matinn má sötra þetta eitt og sér eða búa til kokteila.

Eftirrétturinn er svo bara svissneskt súkkulaði í hvaða því formi sem ykkur dettur í hug. T.d. hægt að henda í súkkulaðifondue og dýfa ávöxtum út í það. Eða útbúa heitt súkkulaði til að drekka. Eða bara útvega mismunandi tegundir af svissnesku súkkulaði. Svisslendingar borða manna mest af súkkulaði, að meðaltali rúmlega 11 kg per mann á ári. Það er ástæða fyrir því, svissneskt súkkulaði er gúrmei.

Mmm, súkkulaði! (Mynd: House of Switzerland)

Þegar kemur að tónlistinni í partýinu þá er best að byrja á einum þekktasta tónlistarmanni sem hefur komið frá Sviss, sjálfum DJ BoBo. Garanterað stuð. Elektrótríóið Solange La Frange hefur vakið athygli út fyrir landið. Fyrsta platan þeirra kom út árið 2007, stuttskífa sem heitir Reykjavik. Svo má auðvitað alltaf reyna sig við jóðlaralistina:

Að lokum

– Dagana 22.-25. júní fór svissneska jóðlhátíðin (þýska: Eidgenössiische Jodlerfest, franska: Fête fédérale des yodleurs, ítalska: Festa federale dello jodel, retórómanska: Festa federala da jodladers) fram í 30. skiptið. Hún var fyrst haldin árið 1924 og er nú haldin á 3 ára fresti.

– Flestir þekkja franskan rennilás en það er ansi skondið nafn á fyrirbæri sem hvorki er franskt né renndur lás. Riflás er annað orð yfir fyrirbærið, sem kallast velcro á erlendum tungumálum. Þetta er svissnesk uppfinning, George de Mestral á heiðurinn af henni.

– Í Sviss er til stjórnmálaflokkur sem heitir Anti PowerPoint Party. Markmið flokksins er að berjast fyrir því að vinnustaðir dragi verulega úr notkun á PowerPoint og sambærilegum hugbúnaði. Flokkurinn var stofnaður fyrir kosningar 2011 og tók líka þátt í kosningunum 2015 í Sviss, fékk þá 4.359 atkvæði.