Borgarpistill: Tilburg

Nú er komið að upphitunarpistlum um borgirnar sem hýsa leiki íslenska liðsins á EM í Hollandi. Fyrsta borgin er Tilburg.

Fyrri upphitunarpistlar:
Hópurinn á EM
Um mótið
Frakkland
Sviss
Austurríki

Fáni Tilburg

Tilburg

Hérað: Noord-Brabant
Stærð: 119,18 km2
Íbúafjöldi: 210 þúsund (í 6. sæti yfir fjölmennustu borgir landsins)

Skjaldarmerki borgarinnar

Punktar um borgina

Fyrstu heimildir um Tilburg eru frá árinu 709. Þó er margt á huldu um upphaf og þróun borgarinnar til að byrja með.

Á 15. öld sá Jan van Haestrecht, lávarður í borginni, til þess að byggður var veglegur kastali í Tilburg. Hann fékk nafnið Tilburg kastali (Kasteel van Tilburg). Hann varð nokkuð þekktur og töluvert minnst á hann í heimildum næstu aldir á eftir. Árið 1858 var kastalinn rifinn og verksmiðja reist á þeim sama stað. Þegar verksmiðjan var svo rifin niður var eftirlíking af grunni kastalans byggð á þeim stað þar sem kastalinn stóð. Það var gert árið 1995. Kastalann má sjá í skjaldarmerki borgarinnar.

Kastalinn í Tilburg (Mynd: kasteleninnederland.nl)

Tilburg byggðist upp á stað þar sem fjöfarnir vegir mættust, auk þess sem þarna voru beitilönd fyrir kindur. Íbúar á svæðinu fóru því að vinna og selja ull til þeirra sem áttu leið hjá og með tímanum varð Tilburg að ullarhöfuðborg Hollands. Það hlutverk hafði hún í nokkrar aldir, allt þar til ullariðnaðurinn hrundi á 7. áratug síðustu aldar.

Willem II Hollandskóngur hafði sérstakt dálæti á Tilburg. Hann studdi vel við fjárrækt og ullariðnað á svæðinu, heimsótti borgina oft og flutti m.a.s. aðsetur sitt þangað. Hann lét reisa höll í borginni en náði ekki að búa í henni þar sem hann lést rétt um það leyti sem hún var tilbúin. Willem II lést í Tilburg árið 1849.

King William II (Mynd: Wikipedia)
Vinaborgir Tilburg

Tilburg á 6 vinaborgir. Þær eru:

  • Lublin í Póllandi
  • Matagalpa í Níkaragva
  • Same í Tansaníu
  • Emfuleni í Suður-Afríku
  • Minamiashigara í Japan
  • Zemun í Serbíu
Þekkt fólk með tengingu við Tilburg

Málarinn Vincent van Gogh gekk í skóla í Tilburg á árunum 1866-68. Þar fékk hann myndlistarkennslu en var ekki ánægður með lífið þar.

Ungur van Gogh í Tilburg (Mynd: inyourpocket.com)

Theo van de Sande er myndatökumaður í kvikmyndabransanum. Hann fæddist í Tilburg árið 1947. Meðal kvikmynda sem hann hefur stjórnað kvikmyndatökum í eru Wayne’s World, Blade og Grown Ups 2.

Fótboltinn í borginni

Knattspyrnulið borgarinnar er Willem II Tilburg. Það var stofnað árið 1896 og hét þá Tilburgia. Tveimur árum seinna fékk það nafnið Willem II Tilburg, í höfuðið á Willem II Hollandskóngi.

Félagið hefur verið með karlalið frá stofnun en bætti ekki við kvennaliði fyrr en árið 2007. Þá var liðið stofnfélag í Eredivisie Vrouwen, úrvalsdeild kvenna í Hollandi. Þetta fyrsta tímabil átti Willem II markadrottningu deildarinnar, hollenska landsliðskonan Karin Stevens kláraði tímabilið með 20 mörk. Að auki var belgíska landsliðskonan Femke Maes í liðinu, en hún var valinn besti leikmaður tímabilsins. Willem II endaði í 2. sæti á fyrsta tímabilinu, 3 stigum á eftir meisturunum í AZ Alkmaar.

Willem II Vrouwen, tímabilið 2010-11 (Mynd: Omroep Brabant)

Næstu tvö tímabil á eftir endaði liðið í 3. sæti en eftir að liðið endaði í 7. sæti tímabilið 2010-11 tilkynnti félagið að það þyrfti að leggja niður kvennaliðið vegna fjárhagsvandræða.

Karlalið félagsins hefur þrisvar unnið efstu deildina (1916, 1952 og 1955), þrisvar unnið næst efstu deildina (1957, 1965 og 2014) og tvisvar unnið hollenska bikarinn (1944 og 1963).

Helsta afþreyingin í boði

Fyrir þau sem ætla að skella sér á leikinn í Tilburg, eða hafa hug á að heimsækja borgina í framtíðinni, þá er ýmislegt sniðugt hægt að finna sér að gera fyrir utan að skella sér á fótboltavöllinn.

  • Textiel Museum
    Textílsafnið opnaði fyrst árið 1958. Textílframleiðsla er nátengd sögu borgarinnar og safnið hefur vakið athygli, var til að mynda valið safn ársins í Hollandi árið 2017.
  • Museum De Pont
    Þetta listagallerí heldur í ár upp á 25 ára afmæli sitt. Það er staðsett í húsi sem einu sinni hýsti ullarframleiðslu en sýnir nú athyglisverða nútímalist.
  • KraftBier
    Lítið brugghús þar sem gestir geta komið, lært um sögu bjórgerðar á svæðinu og smakkað það sem verið er að brugga þessa dagana.
Tilburg (Mynd: Netherlands Tourism)