Þann 22. júlí spilar Ísland annan leik sinn á EM í Hollandi. Sá leikur fer fram í Doetinchem og því tilvalið að henda í upphitunarpistil um borgina.
Fyrri upphitunarpistlar:
– Hópurinn á EM
– Um mótið
Mótherjarnir:
– Frakkland
– Sviss
– Austurríki
Borgirnar:
– Tilburg
Doetinchem
Hérað: Gelderland í austurhluta Hollands
Stærð: 79,66 km2
Íbúafjöldi: 56 þúsund (61. stærsta borg í Hollandi)
Punktar um borgina
Á svæðinu þar sem Doetinchem er núna hafa fundist mannabein, leirmunir og örvaroddar sem sýna fram á að það var byggð á svæðinu fyrir rúmlega 11.000 árum. Þarna hafa líka fundist rómverskir peningar og merki um ferðir víkinga um svæðið. Fyrstu skriflegu heimildir um byggð með nafninu Doetinchem eru frá árinu 838. Fyrstu skriflegu heimildirnar minntust á að þarna væri lítil byggð í kringum kirkju, seinna að þar væri virki með kirkju.
Byggðin stækkaði en varð með tímanum sífellt vinsælla skotmark ræningja og ruplara sem endaði með að í kringum árið 1100 var stór veggur byggður í kringum borgina. Hann var seinna hækkaður og stóð til ársins 1672, þegar borgarbúar töldu að ekki væri lengur þörf á slíkum varnarvegg og rifu hann niður.
Í margar aldir sinnti Doetinchem mikilvægu hlutverki fyrir bændur í nágrenninu með því að hýsa markaðstorg þar sem bændur gátu selt vörur sínar. Þessi markaður var haldinn á torgi sem kallast Simonsplein alveg fram að seinni heimsstyrjöldinni. Ýmis konar markaðir eru enn mjög vinsælir og vel sóttir í Doetinchem.
Vinaborgir Doetinchem
Vinaborgir Doetinchem eru:
- La Libertad, Níkaragva
- Pardubice, Tékkland
Þekkt fólk með tengingu við Doetinchem
Plötusnúðurinn DaY-már (fullu nafni Dagmar Otto) fæddist í borginni. Hún spilar spilar hressa tónlist.
Ókei, það er ekki mikið um að þekkt fólk hafi tengingu við Doetinchem. Fyrir utan reyndar knattspyrnutengt fólk, þar eru nokkrar undantekningar. Meira um það í næsta kafla.
Fótboltinn í borginni
Doetinchem er töluverð íþróttaborg. Blak og sundgreinar eru vinsælar þar, til að mynda hafa komið þaðan sterkir strandblakspilarar og blakliðið Orion er sterkt bæði í karla- og kvennaflokki. Þá er þar handboltalið, körfubolti, hokkí, badminton og fleira.
Í borginni er eitt atvinnumannalið í knattspyrnu (og allavega fjögur áhugamannalið). Það heitir De Graafschap (e. The County). Félagið var stofnað árið 1954 og ber gælunafnið Superboeren, eða Ofurbændurnir.
Eftir þó nokkra leit gat ég ekki fundið nein merki um að félagið hefði nokkurn tímann verið með kvennalið (það er þó birt með þeim fyrirvara að ég skil ekki hollensku og þurfti að treysta á ensku + Google translate). Karlalið félagsins hefur í gegnum tíðina flakkað á milli deilda, eyddi einhverjum tíma í 3. deildinni (Tweede Divisie) en aðallega flakkað á milli efstu deildar og 2. deildar (Eredivisie og Eerste Divisie). Liðið hefur þrisvar komist í fjórðungsúrslit í hollenska bikarnum, það er besti árangurinn í þeirri keppni.
Besti árangur liðsins í deildarkeppni er 8. sæti í Eredivisie tímabilið 1996-97. Þrisvar sinnum hefur liðið unnið Eerste Divisie, það var 1991, 2007 og 2010. Einu sinni vann liðið Tweede Divisie, árið 1969.
Einn Íslendingur hefur spilað með liðinu. Arnar Þór Viðarsson spilaði með De Graafschap tímabilið 2007-08, þá á láni frá FC Twente. Ofurbændurnir voru þá nýliðar í efstu deild, eftir að hafa unnið 2. deildina tímabilið á undan. Meðal samherja Arnars þetta tímabilið var Daninn Lasse Schöne, núverandi leikmaður Ajax. Arnar spilaði 32 leiki af 34 í deild og skoraði 1 mark (sem kom reyndar í 6-1 tapi gegn Sparta Rotterdam en hey, mark er mark!). Liðið endaði í 16. sæti af 18 liðum og tók þátt í umspili um að halda sér í deildinni. Arnar Þór spilaði hverja einustu mínútu í þeim 4 leikjum og hjálpaði liðinu að halda sér í efstu deild.
Þeir Arnar Þór og Lasse Schöne eru ekki einu þekktu einstaklingarnir til að spila fyrir De Graafschap. Pelé spilaði líka fyrir liðið. Þó ekki brasilíski Pelé, heldur ganverski framherjinn Ali Ibrahim Pelé. Sá spilaði með liðinu frá 1996 til 1998 og skoraði 8 deildarmörk.
Þekktustu fyrrum leikmenn De Graafschap eru þó líklega Guus Hiddink og Klaas-Jan Huntelaar. Hiddink spilaði þrisvar með félaginu, fyrst 1967-70, svo 1972-77 og loks 1981-82. Hann hefur þó ekki þjálfað liðið. Ennþá. Huntelaar var 11 ára gamall þegar hann fór að æfa með De Graafshcap. 14 ára gamall átti hann tímabil með unglingaliði félagsins þar sem hann skoraði 33 mörk í 20 leikjum. Það vakti athygli og seinna samdi hann við PSV. Á meðan hann var þar fór hann í lán til De Graafschap og spilaði 9 leiki fyrir aðalliðið, en náði ekki að skora.
Lukkudýr De Graafschap er bláhvítur zebrahestur sem kallast Guus, í höfuðið á Guus Hiddink.
Helsta afþreyingin í boði
Það er ýmislegt sniðugt í boði fyrir fólk sem á leið í borgina. Til dæmis:
- Rozengaarde
Þarna er hægt að fara í sundhöll sem býður upp á rennibrautir og ýmis konar fjör, en líka góðan stað fyrir foreldrana að synda eða slappa af. Þarna er einnig hægt að fara í Skyzone, sem býður upp á ýmis konar þrautir, bæði klifur- og knattspyrnutengdar. - Openbaar Vervoer en Speelgoed Museum
Þetta er almenningssamgöngu- og leikfangasafn. Safnið opnaði fyrst árið 1989 og byggði þá á ævistarfi Cor Oojevaar sem var mikill áhugamaður um sögu almenningssamgangna og leikfanga og safnaði heilmiklu af munum sem tengdust þeim. Síðan þá hefur safnið bara stækkað og dafnað. - Het Raedthuys
Þessi veitingastaður hefur verið í gangi í 15 ár og byggt upp orðspor fyrir metnaðarfulla matreiðslugerð og gott andrúmsloft. Þetta er ekki ódýr staður en miðað við upplifunina þá er hann ekki heldur mjög dýr. Michelin Guide 2017 hafði þetta að segja um veitingastaðinn:
A fine and stylish restaurant with a vintage decor. Everything here is homemade. Attractive menus, featuring specific products and draught beer. Pleasant terrace.