Mótherjinn: Austurríki

Þá er komið að síðasta landinu sem Ísland mætir í C-riðlinum á lokamóti EM í Hollandi í sumar. Síðasti leikurinn verður gegn Austurríki. Við hötum það ekkert að mæta Austurríki í síðasta leik í riðlakeppni EM.

Minni á fyrri upphitunarpistla:
Hópurinn á EM
Um mótið
Frakkland
Sviss

Fáni Austurríkis
Austurríski fáninn (Mynd: Wikipedia)

Austurríki (Republik Österreich)

Höfuðborg: (Þarf alltaf að vera) Vín (?)
Stærð lands: 83.879 km² (81,4% af stærð Íslands)
Íbúafjöldi: 8,783,198 (áætlað)

Tungumál: þýska

Lönd sem liggja að Austurríki: Þýskaland, Ítalía, Ungverjaland, Tékkland, Slóvenía, Sviss, Slóvakía og Liechtenstein

Austurríki er líka landlukt ríki, líkt og Sviss.  Þar er lýðveldi og þingbundin stjórn og hefur verið síðan 1955.

USC Landhaus (Mynd: heimasíða félagsins)

Efsta deildin í kvennaboltanum í Austurríki heitir ÖFB Frauen Bundesliga, þar sem ÖFB stendur fyrir Österreichischer Fußball-Bund eða austurríska knattspyrnusambandið. Fyrsta tímabilið í þeirri deild fór fram 1972-73. Sigursælustu liðin í þeirri deildarkeppni eru tvö, bæði með 12 deildartitla. Annars vegar er það USC Landhaus Wien, knattspyrnufélag sem var stofnað árið 1968 og var stofnfélag í ÖFB Frauenliga. Liðið vann 12 deildartitla á árunum 1974 til 2001 og hefur verið í efstu deild alveg frá upphafi. Hins vegar er það svo SV Neulengbach, félag sem var stofnað árið 1923 en byrjaði ekki með kvennalið fyrr en árið 1996. Kvennaliðið var ekki lengi að skáka karlaliði félagsins (sem hefur alltaf spilað í neðri deildum) og var komið í efstu deildina strax árið 1997, eftir að hafa unnið 2. deildina á sínu fyrsta tímabili. Árið 2003 vann liðið svo deildina í fyrsta skiptið og vann síðan deildina 12 ár í röð í kjölfarið.

SV Neulengbach (Mynd: heimasíða félagsins)

Núverandi meistari er þó hvorugt þessara sigursælu liða heldur SKN St. Pölten Frauen. Það lið var stofnað árið 2006 sem ASV Spratzen, hét svo FSK St. Pölten-Spratzen á árum 2013 til 2016 áður en nafnið breyttist í SKN St. Pölten Frauen. Fyrsta tímabil liðsins, 2006-07, spilaði það í 4. deild en það tók liðið aðeins 5 tímabil að vinna sig upp í efstu deildina. Fyrstu þrjú tímabilin í efstu deild endaði liðið alltaf í 2. sæti en tókst loks að vinna deildina og hefur nú unnið hana þrjú tímabil í röð. Liðið hefur einnig unnið austurríska bikarinn, ÖFB Ladies Cup, 5 tímabil í röð.

SKN St. Pölten Frauen (Mynd: heimasíða félagsins)

St. Pölten er að lang mestu leyti skipað austurrískum leikmönnum. Endanlegur hópur austurríska landsliðsins hefur ekki verið tilkynntur ennþá en í 27 leikmanna hópnum sem nú æfir fyrir mótið eru 5 leikmenn frá St. Pölten, einhverjar þeirra verða örugglega í lokahópnum. Þar eru einnig 2 leikmenn úr Neulenbach en 14 leikmenn af 27 spila utan Austurríkis.

Menningin

Leikarinn geðþekki, Christoph Waltz, er meðal nýjustu viðbóta í kvikmyndasenu Hollywood sem kemur frá Austurríki. Hann fæddist í Vín árið 1956, stundaði leikaranám þar og hóf leiklistarferilinn í leikhúsum Austurríkis áður en hann náði frægð í sjónvarpi og kvikmyndum. Fyrst í Austurríki, svo nágrannalöndunum og loks, með eftirminnilegu hlutverki í kvikmynd Quentin Tarantino Inglorious Basterds, náði hann heimsfrægð.

Hollywood hefur lengi notið góðs af góðu kvikmyndafólki frá Austurríki, hvort heldur er fyrir framan myndavélarnar eða aftan þær. Meðal frægra austurrískra leikstjóra sem fluttu til Hollywood um miðja 20. öldina eða fyrr má nefna  Fritz Lang, Josef von Sternberg, Billy Wilder, Fred Zinnemann og Otto Preminger.

Leikstjórinn Billy Wilder gerði margar frábærar myndir á ferlinum. Hann er á miðri mynd ásamt leikkonunum Hedy Lamarr og Marlene Dietrich (Mynd: BenitoMovieposter.com)

Leikkonan Hedy Lamarr gerði það einnig gott í Hollywood en hún fæddist í Vínarborg árið 1914, hét þá Hedwig Eva Maria Kiesler. 18 ára gömul öðlaðist hún töluverða frægð þegar hún lék í kvikmyndinni Ecstasy, sem kom út árið 1933. Sama ár giftist hún austurríska vopnaframleiðandanum Friedrich Mandl. Hún kunni ekki vel við sig í því hjónabandi, enda Mandl stjórnsamur og frekur, auk þess að vera góðkunningi manna á borð við Adolf Hitler og Benito Mussolini. Hedy flúði því til Parísar og náði að skilja við Mandl. Í París hitti hún einnig kvikmyndaframleiðandann Louis B. Mayer (seinna M-ið í MGM framleiðslurisanum) sem hjálpaði henni að komast til Hollywood.

Hedy Lamarr (Mynd: HedyLamarr.com)

Þar breytti hún nafni sínu í Hedy Lamarr, fékk samning hjá MGM stúdíóinu og sló svo í gegn í kvikmyndinni Algiers, sem kom út árið 1938. Um nokkurra ára skeið eftir það var hún ein allra vinsælasta leikkonan í Hollywood og varð heimsfræg í gegnum kvikmyndaleik sinn. Fimmti áratugur 20. aldar var blómlegur hjá henni, þar sem hún lék í hverri stórmyndinni á fætur annarri, til dæmis Tortilla Flat og Samson and Delilah. Alls lék hún í 19 kvikmyndum frá 1940-1950.

Á þeim tíma lét hún sér þó aldeilis ekki nægja að vera „bara“ vinsæl og vel metin kvikmyndastjarna, inn á milli dundaði hún sér við það að finna upp tækninýjung sem enn í dag hefur stór áhrif á líf okkar allra. Eftir hjónaband sitt við vopnaframleiðandann Mandl vissi hún að það væri vandamál í hernaði þegar kæmi að því að stýra tundurskeytum með öruggum hætti. Skilaboðin voru send út á einni tíðni sem þá var hægt að komast inn í svo óvinurinn gat náð tökum á tundurskeytinu og stýrt því. Árið 1941 fékk Lamarr einkaleyfi á tækni sem gerði sendingunni kleift að hoppa sífellt á milli tíðnirása í röð sem aðeins senditækið og viðtækið þekktu. Lamarr vann að þessu í samstarfi við bandaríska píanóleikarann George Antheil. Antheil hafði unnið töluvert í tilraunamúsík og óhefðbundnum tónverkum, til að mynda sjálfvirkum píanóum. Þannig kviknaði hugmyndin hjá Lamarr.

Hedy Lamarr fyrir miðju og George Antheil hægra megin við hana (Mynd: NY Times)

Þessi tiltekna tækni var seinna notuð í hernaði og er nú mikilvægur þáttur þegar kemur að farsímatækni sem og þráðlausu neti.

Matarboðið

Annað sumarið í röð er komið að austurrísku þemamatarboði. Í fyrra var það vínarsnitsel og apfelstrudel, rosalega auðvelt val. Auðvitað er alveg hægt að endurtaka leikinn, það er ekki eins og þessar eðalveigar séu nokkurn tímann að fara að klikka. En það er líka hægt að fara aðeins öðruvísi leið.

Annar af þjóðarréttum Austurríki er Tafelspitz. Nauta- eða kálfakjöt í vel krydduðu soði með einföldu meðlæti. Mjög vinsæll réttur og hérna er uppskrift ef þið viljið vita af hverju hann er svona vinsæll.

Tafelspitz (Mynd: Austria.info)

Annar þjóðlegur réttur frá Austurríki er eftirrétturinn Kaiserschmarrn (e. Emperor’s Mess). Rétturinn heitir eftir Frans Jósef, keisara Austurríkis á árunum 1848 til 1916. Bæði er talið að það hafi verið kokkur keisarans sem útbjó þennan rétt fyrst og að rétturinn hafi verið í sérstöku dálæti hjá Frans Jósef. Þetta er líka sannkallaður sælkeraréttur, pönnukökuréttur með ávöxtum og sultu. Hérna má sjá klassíska uppskrift að þessum rétti.

Kaiserschmarrn (Mynd: Plated Cravings)

Hvað tónlistina í partýinu varðar þá er tilvalið að setja í gang vinsælasta og mest selda söngvara sem komið hefur frá Austurríki. Árið 1985 kom út ansi sérstakt lag, það var fyrsta lagið sem kom þýskumælandi flytjenda á topp allra lista í Bandaríkjunum og fyrsta lagið sem kom austurrískum flytjenda á topp vinsældarlista í Bretlandi. Þetta var hittari hittaranna, slagarinn Rock Me Amadeus með Johann Hölzel, betur þekktum sem Falco. Geggjað lag, og tilvalið að tjékka á fleiri lögum eftir kappann. Ef við höldum okkur bara í áttunni þá getum við líka tjékkað á hljómsveitinni Opus og þeirra aðalslagara, Live is LifeOpus lifir enn góðu lífi bara á þessum eina hittara. Þurfa ekkert meira (eiga alveg fleiri lög, þurfa þau bara ekkert).

Að lokum

– Saumavélin er austurrísk uppfinning, fundin upp af klæðskeranum Josef Madersperger.

– Fyrsta kaffihúsið í Vín opnaði í kringum árið 1683 og átti stóran þátt í að kaffimenningin breiddist út um Evrópu. Ástæðan fyrir því var að Tyrkjaher flúði þá borgina eftir innrás og skildu eftir sig sekki af kaffibaunum. Austurríski hermaðurinn Jerzy Franciszek Kulczycki opnaði kaffihúsið, hann hafði verið tekinn til fanga af Tyrkjunum og lærði af þeim hvernig ætti að hella upp á góðan bolla.

– Í borginni Salzburg í Austurríki er St. Peter’s Abbey klaustrið, sem var stofnað árið 696. Það er eitt elsta klaustur í hinum þýskumælandi heimi. Í klaustrinu er bókasafn, sem er hið elsta í Austurríki. Þar er líka skjalasafn og tónlistarskjalasafn. Að auki er þar veitingastaðurinn St. Peter’s Stiftskeller. Fyrstu rituðu heimildir um veitingastaðinn eru frá árinu 803, hann er talinn sá elsti í Evrópu.