Vellirnir: Stadion De Vijverberg

Laugardaginn 22. júlí spilar Ísland annan leik sinn í C-riðlinum á EM Í Hollandi. Andstæðingarnir í þeim leik verða frá Sviss. Leikurinn fer fram í borginni Doetinchem, nánar tiltekið á knattspyrnuvellinum Stadion De Vijverberg.

Mynd: De Graafschap

Grunnupplýsingarnar

Nafn: Stadion De Vijverberg
Áhorfendur: 12.600
Vallarflötur: 68 m x 105 m
Vallaryfirborð: Náttúrulegt gras

Opnaði: 1954
Fjöldi leikja á EM ’17: 5 leikir, 4 í riðlakeppninni og 1 í fjórðungsúrslitum

Heimilisfang vallarins:
Lijsterbeslaan 101A
7004 GN Doetinchem

Mynd: Football Tripper

Aðeins meira um völlinn

De Vijverberg völlurinn opnaði 4. september 1954 þegar heimamenn í hinu nýstofnaða liði De Graafschap spiluðu leik gegn öðru nýstofnuðu liði, Fortuna ’54 frá Geleen. 12.000 áhorfendur, flestir í stæðum, sáu liðin gera 1-1 jafntefli. Saga Fortuna ’54 náði ekki lengra en til ársins 1968 en De Graafschap er enn að og spilar enn á De Vijverberg vellinum.

Í gegnum tíðina hefur völlurinn gengið í gegnum nokkrar endurnýjanir og stækkanir. Það þurfti til dæmis að skipta út tréstúkum fyrir steyptar stúkur og bæta við stúkum þannig að þær náðu allan hringinn. Á seinni hluta 9. áratugsins var byggt þak yfir stúkurnar. Undir lok 10. áratugsins var völlurinn þó farinn að láta verulega á sjá, þá var farið í mikið endurnýjunarstarf á öllum leikvangnum. Allar stúkurnar voru þá rifnar niður og endursmíðaðar. Það starf tók 2 ár og var nýi leikvangurinn tilbúinn sumarið 2000.

Það var lengi vel lestarstöð á vellinum en henni var lokað árið 2005. Árið 2007 voru gerðar smávegis breytingar á leikvangnum. Síðustu ár hefur De Graafschap verið að skoða þann möguleika að byggja nýjan völl fyrir starfsemi sína. Félagið fékk hins vegar ekki réttu leyfin fyrir slíkar framkvæmdir og hafa þess í stað ákveðið að kanna möguleikann á frekari stækkunum á Stadion De Vijverberg.

Nafnið á vellinum er tekið frá hótelinu De Vijverberg sem stóð á svipuðum slóðum og völlurinn stendur núna. De Vijverberg þýðir The Pond Hill, eða Tjarnarhæðin. Það nafn var valið á hótelið vegna þess að áður en hægt var að byggja á svæðinu þurfti að fylla upp í margar tjarnir sem voru þar fyrir. Það starf var unnið af slíku kappi að hæð myndaðist þar sem tjarnirnar höfðu áður verið.

Stúkurnar fjórar sem umlykja völlinn heita Roodbergentribune, Groenendaaltribune, Vijverbergtribune og Spinnekoptribune, síðastnefnda stúkan er einnig þekkt undir nafninu Spinside. Á myndinni af vellinum hér að neðan er Vijverbergtribune þar sem hólf 1-10 eru, Spinside er þar sem hólf 13-19 eru, Roodbergentribune er hólf 22-31 og Groenenaaltribune er hólf 34-40. Spinside stúkan er sérstaklega ætluð hörðustu stuðningshópunum sem mæta á völlinn og því sérstaklega viðeigandi að sjá svona marga íslenska fána merkja miðasölumyndina frá UEFA á meðan svissnesku fánarnir eru mun færri. Þennan völl ætlum við að eiga!

Yfirlitsmynd af vellinum (Hægt að kaupa miða hér!)

Þessi völlur hefur í gegnum tíðina ekki séð marga landsleiki. Félagsliðið sem spilar þarna er ekki fastagestur í efstu deildum hollensku knattspyrnunnar. Þegar íslenska liðið mætir á De Vijverberg verður það þriðji landsleikurinn á EM sem fer fram á þessum velli. En þetta verður ekki fyrsti landsleikurinn á vellinum þar sem Ísland kemur við sögu…

Holland – Ísland, 1988

Þegar Ólympíulandslið Íslands í karlaflokki keppti í undankeppni Ólympíuleikanna í Seoul árið 1988 lenti það í riðli með Ítalíu, Austur-Þýskalandi, Portúgal og Hollandi. Þann 27. apríl 1988 mættust liðin í Hollandi, eftir að hafa gert 2-2 jafntefli á Laugardalsvelli árinu áður. Leikurinn í Hollandi fór einmitt fram á Stadion De Vijverberg í Doetinchem. En hann endaði ekkert alltof vel fyrir íslenska liðið.

Morgunblaðið, 28. apríl 1988

Aðeins 573 áhorfendur mættu á þennan landsleik, sem þótti heldur lélegur. Enda voru þetta liðin sem enduðu í neðstu sætum riðilsins. Það markverðasta í þessum leik, fyrir okkur Íslendinga, var líklega það að markvörðurinn Birkir Kristinsson spilaði þarna sinn fyrsta landsleik. Þá kom Rúnar Kristinsson inn á sem varamaður og spilaði þar sinn 2. landsleik. Þetta var eini sigur Hollendinga í riðlinum, sem náðu auk þess í 3 jafntefli. Eini sigur íslenska liðsins kom gegn Austur-Þýskalandi en það náði hins vegar aðeins í eitt jafntefli og endaði því í neðsta sæti. Ítalía vann riðilinn og fór til Seoul.

Fanzone

Það verða töluvert fleiri en 573 sem munu sjá Ísland spila á vellinum í þetta skiptið, enda ærið tilefni til. Það verður að sjálfsögðu hægt að fara á fanzone fyrir leik, í Doetinchem verður fanzone á IJsselkade, rétt við ána Oude IJssel.

Þar verður skemmtun og afþreying fyrir alla fjölskylduna. Það verða meðal annars hoppukastalar þarna, Pole Soccer og litlir knattspyrnuvellir.

Stemningin

Það er alveg ljóst að þrátt fyrir að mætingin hafi verið dræm á einhvern Ólympíuundankeppnislandsleik fyrir næstum 30 árum síðan þá þýðir það alls ekki að þessi völlur sé vanur einhverju stemningsleysi. Aldeilis ekki! Þarna er góð aðstaða til að mæta með kæti og skemmtileg læti til að mynda góða fótboltastemningu. Það ætlum við svo sannarlega að gera þann 22. júlí. Hér má sjá dæmi um það hvernig stemningu má mynda í Spinnekop stúkunni, sömu stúku og íslenska stuðningsfólkið verður í þegar flautað verður til leiks.

Leikirnir á EM ’17

Leikirnir sem verða spilaðir á Stadion De Vijverberg á EM ’17:

1) Sunnudagurinn 16. júlí 2017, kl. 20:45 að staðartíma (18:45 á Íslandi)
Danmörk – Belgía, í A-riðli

2) Miðvikudagurinn 19. júlí 2017, kl. 18:00 að staðartíma (16:00 á Íslandi)
Spánn – Portúgal, í D-riðli

3) Laugardaginn 22. júlí 2017, kl. 18:00 að staðartíma (16:00 á Íslandi)
Ísland – Sviss, í C-riðli

4) Þriðjudaginn 25. júlí 2017, kl. 20:45 að staðartíma (18:45 á Íslandi)
Svíþjóð – Ítalía, í B-riðli

5) Laugardaginn 29. júlí 2017, 8-liða úrslit
Sigurvegari úr A-riðli – 2. sæti úr B-riðli

Mynd: SEFutbol