Vellirnir: Koning Willem II Stadion

Við erum búin að fara yfir hópinn sem fer á EM og rúlla yfir mótið sjálft. Síðan tókum við fyrir löndin sem eru með okkur í riðli; Frakkland, Sviss og Austurríki. Núna síðast sögðum við frá borgunum sem leikið verður í; Tilburg, Doetinchem og Rotterdam. Nú er komið að síðasta tríóinu fyrir mót, það eru vellirnir sem Ísland spilar á. Fyrsti völlurinn er Koning Willem II Stadion í Tilburg.

Grunnupplýsingar

Nafn: Koning Willem II Stadion
Áhorfendur: 14.637
Vallarflötur: 102 m x 65 m (til samanburðar er Laugardalsvöllurinn 105 m x 68 m)
Vallaryfirborð: Náttúrulegt gras

Opnaði: 1995
Fjöldi leikja á EM ’17: 5 leikir, 4 í riðlakeppni og 1 í 8-liða úrslitum.

Heimilisfang vallarins:
Goirlese Weg 34
5026 PC, Tilburg

Aðeins meira um völlinn

Koning Willem II Stadion völlurinn var reistur árið 1995. Þetta er fjölnota mannvirki, hægt að nota það fyrir fleira en fótboltaleiki. En þó er völlurinn aðallega notaður fyrir heimaleiki fyrir félagsliðið Willem II í Tilburg.

Völlurinn var reistur á sama stað og fyrri heimavöllur Willem II, íþróttamannvirkið Gemeentelijk Sportpark Tilburg sem var heimavöllur Willem II frá 1919 til 1992.

Þegar völlurinn var vígður árið 1995 hét hann þó bara Willem II Stadion, það var ekki fyrr en árið 2009 sem Koning bættist við titil vallarins, til að gera það alveg ljóst að völlurinn væri nefndur í höfuðið á Willem II Hollandskóngi sem ríkti á árunum 1840 til 1849. Willi kóngur fílaði Tilburg í botn, eins og kom fram í upphitunarpistli um borgina, og borgarbúar fíla alltaf kónginn sinn til baka og heiðra hann með viðeigandi hætti.

Kingside stúkan í Koning Willem II Stadion (Mynd: Football Tripper)

Norðurhluti stúkunnar heitir Kingside, sem passar mjög vel inn í þetta kóngsþema sem umleikur völlinn, félagsliðið og jafnvel borgina alla. Þar sitja yfirleitt mestu harðkjarna stuðningsmenn félagsins, í hólfum merktum A, B og C hér á myndinni að neðan. Það sem er nokkuð fyndið er að stuðningshópur útiliðsins situr yfirleitt í hólfi P, sem er í horninu vinstra megin við Kingside stúkuna. Þar að auki er hólf E yfirleitt frátekið fyrir eldheitan stuðningsmannahóp heimaliðsins.

Öll þessi hólf, það er A, B, C og E, eru frátekin fyrir stuðningshóp franska landsliðsins í leik Íslands og Frakklands í fyrstu umferð C-riðils. En Íslendingarnir sem mæta á völlinn verða þar á móti, í suðurstúkunni á vellinum. Í hólfum N, M og L. Kannski halda Frakkarnir að þeir muni eiga stúkuna eins og þeir væru heimamenn, en frönsku áhorfendurnir hljóta þó að hafa lært sitthvað um íslenska fótboltaáhangendur eftir síðasta sumar!

Yfirlitsmynd af vellinum (Hægt að kaupa miða hér!)

Fanzone

Það verður Fanzone í Tilburg á öllum dögum þar sem leikið verður í borginni. Það opnar á leikdögunum klukkan 13:00 og lokar kl. 20 að staðartíma. Fanzoneið verður á Pieter Vreedeplein. Þar verða skemmtiatriði á sviði og alls konar knattspyrnutengd afþreying, til dæmis freestyle fótboltabrellumeistararnir Soufiane TouzaniChaimadame, Nasser El Jackson og Nelson de Kok. Þarna verður alls konar skemmtun fyrir alla fjölskylduna og upp úr klukkan 19 verður skrúðganga af Fanzoneinu yfir á fótboltavöllinn sjálfan.

Stemningin

Nú gætu kannski einhverjir spurt sig, er hægt að mynda almennilega fótboltastemningu á einhverjum velli í Tilburg í Hollandi? Það er ég nú aldeilis hræddur um! Völlurinn er kannski ekki sá stærsti en það er stúka allan hringinn og engin hlaupabraut, sem þýðir að áhorfendur eru alveg ofan í hasarnum. Það er líka þak yfir hverju einasta sæti í stúkum vallarins, sem ekki bara skapar skjól fyrir veðrinu heldur virkar líka eins og magnari á hverja þá stemningu sem kann að myndast í stúkunni. Og við Íslendingar ætlum ekkert að mæta í stúkuna í Tilburg til að vera ekki með læti og fjör!

Leikirnir á EM ’17

Af 31 leik á EM 2017 mun 5 þeirra verða spilaðir á Koning Willem II Stadion í Tilburg. Það eru eftirfarandi leikir:

1) Þriðjudaginn 18. júlí 2017, kl. 20:45 að staðartíma (18:45 að íslenskum tíma)
Frakkland – Ísland í C-riðli

2) Föstudagurinn 21. júlí 2017, kl. 20:45 að staðartíma (18:45 á Íslandi)
Þýskaland – Ítalía í B-riðli

3) Mánudagurinn 24. júlí 2017, kl. 20:45 að staðartíma (18:45 á Íslandi)
Belgía – Holland í A-riðli

4) Fimmtudagurinn 27. júlí 2017, kl. 20:45 að staðartíma (18:45 á Íslandi)
Portúgal – England í D-riðli

5) Sunnudagurinn 30. júlí 2017, 8-liða úrslit
Sigurvegari í C-riðli – 2. sæti í D-riðli