Borgarpistill: Rotterdam

Síðasti leikur Íslands í riðlakeppni EM í Hollandi verður spilaður í borginni Rotterdam. Það gengur ekki að skilja þá góðu borg útundan svo auðvitað fær hún líka upphitunarpistil.

Fyrri upphitunarpistlar:
Hópurinn á EM
Um mótið
Mótherjarnir:
Frakkland
Sviss
Austurríki
Borgirnar:
Tilburg
Doetinchem

Fáni Rotterdam

Rotterdam

Hérað: Suður Holland, í suðurhluta Hollands
Stærð: 325,79 km2
Íbúafjöldi: 620 þúsund (í 2. sæti yfir fjölmennustu borgir Hollands)

Skjaldarmerki Rotterdam

Punktar um borgina

Rotterdam heitir eftir ánni Rotte sem rennur í haf þar sem borgin er núna. Heitið Rotte er upp úr orðunum rot, sem þýðir aurug (e. muddy) og svo a sem þýðir á, segir allt sem segja þarf um hvernig á þetta er.

Það hefur lengi verið byggð í kringum neðsta hluta árinnar, í það minnsta frá árinu 900. En mikil flóð á svæðinu gerðu það erfitt fyrir byggðina að stækka lengi framan af. Það var ekki fyrr en íbúar svæðisins fóru að byggja stíflur, varnargarða og síki til að stjórna vatnsflæðinu sem byggðin fór að stækka. En þá stækkaði hún líka verulega og árið 1340 fékk Rotterdam borgarréttindi. Borgin varð líka strax mikil hafnarborg og er enn. Í Rotterdam er stærsta höfn Evrópu og hún var á árunum 1962 til 2004 fjölfarnasta höfn í heimi. Hafnarsvæðið er 105 ferkílómetrar og teygir sig yfir 41 km svæði.

Hluti af hafnarsvæðinu í Rotterdam (Mynd: Port of Rotterdam)

Hollendingar eru snillingar þegar kemur að því að útbúa varnargarða, síki og þurrka upp land sem hægt er að nota, til dæmis fyrir byggð. Þannig eru stórir hlutar Rotterdam fyrir neðan sjávarmál. Lægsti punktur borgarinnar er í Prins Albert hverfinu í norðausturhluta borgarinnar, það er 6 metrum undir sjávarmáli.

Stór hluti af borginni var eyðilagður í seinni heimsstyrjöldinni þegar þýski flugherinn gerði loftárás á borgina, þann 14. maí 1940. Hollendingar höfðu veitt þýska hernum mikið viðnám þegar hann réðst inn í landið, sérstaklega í Rotterdam. Loftárásin var því leið Hitlers til að knýja fram uppgjöf frá Hollendingum. Alls voru notaðar 1.150 50 kílógramma sprengjur og 158 250 kílógramma sprengjur í loftárásinni, það olli því að um 2,6 ferkílómetra svæði í miðri Rotterdam var svo gott sem jafnað við jörðu. Í kjölfarið kviknuðu miklir eldar sem eyðilögðu einnig fjölmörg hús. Alls urðu um 85.000 íbúar heimilislausir en vegna átaka sem höfðu átt sér stað í borginni höfðu margir flúið hana og því varð mannfallið tæplega 1.000 manns, sem þykir frekar lítið miðað við alla eyðilegginguna.

Rotterdam hefur því ekki þennan gamla, sögulega miðborgarkjarna eins og margar aðrar borgir í landinu. En það eru miklar minningar um þennan viðburð. Til dæmis ákvað borgarstjórnin árið 2006 að koma fyrir 128 ljósum í gangstéttum borgarinnar sem mynda línuna utan um borgarhlutann sem var sprengdur og brann.

Eitt af ljósunum 128 (Mynd: Landmark Scout)
Vinaborgir Rotterdam

Rotterdam á margar vinaborgir en auk þess líka samstarfsborgir (e. partner cities). Vinaborgirnar eru:

 • Baltimore, Bandaríkin
 • Burgas, Búlgaría
 • Köln, Þýskaland
 • Constanta, Rúmenía
 • Dresden, Þýskaland
 • Esch-sur-Alzette, Lúxemborg
 • Gda?sk, Pólland
 • Havana, Kúbu
 • Lille, Frakkland
 • Liège, Belgía
 • Sjanghæ, Kína
 • Sankti Pétursborg, Rússland
 • Turin, Ítalía

Samstarfsborgirnar eru:

 • Antwerpen, Belgía
 • Basel, Sviss
 • Bratislava, Slóvakía
 • Búdapest, Ungverjaland
 • Duisburg, Þýskaland
 • Durban, Suður-Afríka
 • Hull, Bretland
 • Djakarta, Indónesía
 • Nürnberg, Þýskaland
 • Osaka, Japan
 • Osló, Noregur
 • Prag, Tékkland

Að auki eru eftirfarandi borgir með systurhafnir hafnarinnar í Rotterdam:

 • Kobe, Japan
 • Busan, Suður-Kórea
 • Seattle, Bandaríkin
 • Tokyo, Japan
Þekkt fólk með tengingu við Rotterdam

Listmálarinn Willem de Kooning, frumkvöðull í abstrakt expressjónisma, fæddist í Rotterdam árið 1904. Hann flutti til New York árið 1927 og varð þar þekktur listmálari. Í fyrra seldist málverk eftir hann á uppboði fyrir 66,3 milljón dollara, sem þá jafngilti 7,5 milljörðum íslenskra króna.

Willem de Kooning (Mynd: The Willem de Kooning Foundation)

Fótboltamennirnir Robin van Persie, Giovanni van Bronckhorst og Winston Bogarde fæddust allir í Rotterdam.

Húmanistinn og guðfræðingurinn Erasmus var einnig þekktur sem Erasmus of Rotterdam. Það er talið að hann hafi fæðst árið 1466 en fræðingar eru ekki á sama máli hvort Erasmus fæddist í Rotterdam eða Gouda. Hann bjó í það minnsta ekki lengi í Rotterdam, aðeins í kringum 4 ár. En það er þó allavega stytta af honum í Rotterdam.

Styttan af Erasmus í Rotterdam (Mynd: Sculpture International Rotterdam)

Fótboltinn í borginni

Rotterdam er mikil íþróttaborg, raunar nota íbúar borgarinnar orðið Sportstad til að lýsa henni en það þýðir einmitt Íþróttaborg. Borgin skipuleggur og heldur reglulega íþróttaviðburði á borð við Rotterdam maraþonið, hafnarboltamótið World Port Tournament, tennismótið Rotterdam Open og fleiri.

Hinar ýmsu íþróttagreinar eiga sér sinn sess í íþróttalífi borgarinnar en fótboltinn er þó vinsælastur og þó nokkur félög eiga aðsetur sitt í Rotterdam. Þekktustu knattspyrnufélög borgarinnar eru Feyenoord, Excelsior og Sparta Rotterdam.

Þessi félög eru öll með karlalið í efstu deild, Feyenoord vann þar m.a.s. úrvalsdeildina á síðasta tímabili, Excelsior endaði í 12. sæti og Sparta í 15. sæti, af 18 liðum í efstu deild. Í kvennaboltanum er þó því miður eitthvað minna að frétta. Excelsior ætlar að halda uppi merkjum borgarinnar í kvennadeildinni því nú í sumar var stofnað kvennalið félagsins sem mun taka þátt í úrvalsdeildinni strax á næsta tímabili. Það er fyrsta kvennalið borgarinnar sem tekur þátt í efstu deild. Að auki er Sparta Rotterdam með kvennalið í áhugamannaboltanum en Feyenoord virðist ekki vera með kvennalið.

Corina Luijks er einn af leikmönnum sem verða í nýju kvennaliði Excelsior á næsta tímabili, hún kemur þangað frá Lierse SK í Belgíu (Mynd: Vrouwen Voetbalnieuws)

Það verða alls 5 leikir á EM spilaðir í Rotterdam. Fjórir þeirra eru í riðlakeppninni, þar af einn með hollenska landsliðinu. Svo fær borgin einn leik í fjórðungsúrslitum, þar gæti mögulega komið inn annar leikur með hollenska landsliðinu. Vonandi hjálpar það til við að kveikja meiri áhuga á kvennafótboltanum í borginni. Borg sem kallar sig Sportstad á það nú alveg skilið.

Helsta afþreyingin í boði

Það er ansi margt hægt að gera sniðugt í Rotterdam, enda borgin litrík og full af menningu. Hér eru þó allavega nokkrar góðar uppástungur til að byrja með:

 • Markthal Rotterdam
  Þetta er risastór markaður í húsi sem var sérstaklega byggt fyrir markaðinn. Byggingin sjálf er lífleg og skemmtileg og þar inni má finna alls kyns verslanir, markaðstorg, veitingastaði og bari.
 • Museum Boijmans Van Beuningen
  Þetta listasafn opnaði fyrst árið 1849 og fær árlega í kringum 270.000 gesti. Þarna er bæði hægt að sjá gömlu meistarana og nútímalist.
 • Euromast
  Euromast er útsýnisturn sem var byggður á árunum 1958 til 1960. Útsýnishæðin sjálf er í 96 metra hæð og þar má finna veitingastað, kaffihús og bar. Í 100 metra hæð er svo hótel, það er því hægt að gista í turninum og njóta útsýnisins yfir borgina af svölunum.

Bónusuppástunga:

 • Kinderdijk
  Kinderdijk er ekki í Rotterdam en það er nógu nálægt til að það er hægt að gera sér ferð þangað með góðu móti. Það má til dæmis taka waterbus, sú ferð tekur um það bil hálftíma. En það borgar sig að gefa sér góðan tíma til að skoða það sem Kinderdijk hefur upp á að bjóða. Svæðið er á náttúruminjaskrá UNESCO vegna þess að þar eru 19 vindmyllur sem voru byggðar 1738 og 1740 sem liður í því að verja landsvæðið fyrir vatni. Raunar er svæðið nokkurs konar safn um sögu vatnsstjórnunar í Hollandi.
Rotterdam, séð frá Euromast turninum (Mynd: Wikipedia)