Leikdagur: Ísland – Nígería

Þvílík byrjun á ferli Íslands sem þátttakandi í lokamóti HM! Enn einu sinni sýna strákarnir okkar seiglu, dugnað, hugrekki og góða fótboltaspilamennsku. Við erum samt rétt að byrja hérna, það eru allavega tveir leikir eftir í þessari keppni.

Við tókum upp podcast til að fara yfir málin og fá góðar ferðaráðleggingar frá vönum mönnum. Hér er hægt að hlusta á það.

Heimsmeistaramót karlalandsliða í knattspyrnu í Rússlandi,
föstudaginn 22. júní 2018,
klukkan 15:00 að íslenskum tíma, 18:00 í Volgograd.

Ísland – Nígería

2. umferð í D-riðli.

Völlur: Volgograd Arena, tekur 45.568 áhorfendur.

Hér er upphitunarpistill um borgina Volgograd.
Hér er upphitunarpistill um Volgograd Arena.

Mynd: TheFootballStadiums.com

Volgograd/Stalingrad

Leikurinn fer fram í borg sem alla jafna gengur undir nafninu Volgograd þessa dagana. Sögulega er hún þó þekktari undir nafninu Stalingrad, þótt það sé reyndar ekki upphaflegt nafn borgarinnar. Upphaflega nafnið var Tsaritsyn, frá 1589 til 1925.

Árið 2013 var svo samþykkt í borgarstjórn Volgograd að á 9 völdum dagsetningum myndi borgin bera titilinn hetjuborgin Stalingrad. Hetjuborg er virðingarvottur sem 12 borgum gömlu Sovétríkjanna var veittur vegna mikilvægi þeirra í seinni heimsstyrjöldinni. Dagsetningarnar voru valdar vegna þess að á þeim gerðust merkir atburðir í sama stríði.

Embed from Getty Images

Ein af þessum dagsetningum er einmitt 22. júní en þann dag árið 1941 réðust nasistar inn í Sovétríkin. Ísland er því að fara að spila landsleik í hetjuborginni Stalingrad á þessu heimsmeistaramóti.


Dómari: Matthew Conger frá Nýja-Sjálandi.

Veðurspá…

… í Volgograd:

Það verður heitt! Hitinn verður farinn að skríða yfir 30 gráðurnar um hádegið og fer svo upp í 33 gráður upp úr hádegi, með glampandi sól og heiðskírum himni. Þegar leikurinn byrjar ætti hitinn að vera um 30 gráður og lækkar svo líklega aðeins á meðan leik stendur. Það verður gola yfir daginn og líka á meðan leik stendur, u.þ.b. 4 m/s af austnorðaustanátt.

… í Reykjavík:

Það verður fínasta veður í Reykjavík. Hiti 9-10 gráður, 3-4 m/s suðvestanátt, skýjað en líklegast úrkomulaust yfir leiknum. Þó vissara að vera við öllu búin ef þið ætlið að mæta á HM-torgið.


Dagskráin á leikdegi

Volgograd

Það er engin þörf á sérstöku aukapartýi í Volgograd eins og var í Moskvu fyrir leikinn gegn Argentínu. Ólíkt því sem er í Moskvu þá er Fanfestið, þ.e. stuðningsmannasvæðið, í Volgograd frekar nálægt keppnisvellinum og því tilvalið að Íslendingar á leið á leikinn hittist einfaldlega þar.

Sama hvar þið verðið þá er samt gott að hafa í huga að það getur tekið lengri tíma en vanalega að komast að vellinum og að það er gott að mæta að velli 2,5-3 tímum fyrir leik. Við viljum að sem flest af ykkur verðið mætt í stúkuna snemma til að syngja og tralla og peppa.

Stuðningsmannasvæðið í Volgograd er við 62nd Army Embankment, við ána Volgu. Þarna er alltaf eitthvað um að vera, mikið af tónleikum og skemmtiatriðum á milli þess sem leikirnir eru sýndir á risaskjá. Þarna er veitingasala og ýmis konar afþreying önnur en skemmtiatriðin á sviðinu.

Svæðið opnar klukkan 12:00 en skemmtiatriðin byrja svo klukkan 13:00. Allir leikir eru síðan sýndir á risaskjánum sem er á sviðinu. Eftir leik Íslands og Nígeríu verða tónleikar á sviðinu og svæðið er opið til 1 eftir miðnætti alla dagana, hvort sem það er leikur í borginni eða ekki.

Mynd: FIFA

Hér má sjá upplýsingar frá FIFA um svæðið.

Hér má sjá sérstaka heimasíðu um Fan Festið í Volgograd.

Íslendingar eru svo líka sérstaklega velkomnir á Biblioteka Gastropub sem er rétt hjá stuðningsmannasvæðinu. Það er rússneskur bar með bresku þema, tilvalinn staður til að kíkja á til að fá sér að borða, drekka eða bara til að flýja sólina ef hún verður of mikil.

Við minnum svo líka á Tólfupartý Tripical sem verður seinna um kvöldið. Moskvupartýið sló í gegn, stemningin var góð og vel veitt. Skoðið þetta endilega, hérna er hægt að athuga með miða.

Reykjavík

Það var virkilega gaman að sjá hversu margir mættu á HM-torgið til að fylgjast með leiknum gegn Argentínu, jafnvel þótt veðrið væri ekki upp á sitt besta. Rigningin náði ekki að skemma góða skapið.

Mynd: HM-torgið

Að sjálfsögðu verður HM-torgið aftur á sínum stað á þessum leikdegi. Trommarar frá Tólfunni mæta til að stýra víkingaklappi og halda uppi fjöri, skemmtiatriði verður á sviðinu, veitingasala og ýmis konar afþreying fyrir unga sem aldna. Sérstakir gestir verða svo Radspitz frá Þýskalandi og Magni Ásgeirsson sem munu meðal annars flytja stuðningsmannalög sín um íslenska liðið og Tólfuna.

Hér má sjá viðburðinn á Facebook.


Ísland

Hér er HM-hópur Íslands.

Embed from Getty Images

Staða á styrkleikalista FIFA: 22. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: S T J S S T T T J J
Markatala í síðustu 10 leikjum: 20-16

Þjálfari: Heimir Hallgrímsson
Fyrirliði: Aron Einar Gunnarsson

Embed from Getty Images

Flestar vítaspyrnur varðar frá Messi: Hannes Þór Halldórsson
Flestir Instagramfylgjendur: Rúrik Gíslason
Flest íslensk mörk í sögu HM: Alfreð Finnbogason

Embed from Getty Images

Þessi úrslit voru svakaleg og úrslitin í leik Argentínu og Króatíu voru líka ansi rosaleg. Króatarnir eru þá komnir með 6 stig og ef annað liðið nær að vinna þennan leik þá er það lið komið í mjög góð mál fyrir lokaumferðina.

Jóhann Berg meiddist því miður í leiknum gegn Argentínu, það munar ansi mikið um hann. En það er þá spurning hver kemur inn í staðinn, hvort það verði Rúrik Gíslason eða einhver annar.

Eins er spurning hvort þjálfarateymið haldi sig við 4-4-1-1 kerfið eða velji eitthvað annað, eins og til dæmis 4-4-2. Það hefur oft gefist vel, til dæmis í kringum EM og í útileiknum gegn Tyrklandi. En það getur líka sannarlega verið góð hugmynd að gefa Gylfa frjálsari rullu í svæðinu fyrir aftan framherjann og að hafa hann framar á vellinum.

Hvað sem verður þá vitum við og treystum því að þjálfarateymið hafi leikgreint stöðuna vel og finni gott gameplan.


Nígería

Hér er upphitunarpistill um Nígeríu.

Embed from Getty Images

Staða á styrkleikalista FIFA: 48. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: S S S T S T J T T T
Markatala í síðustu 10 leikjum: 6-14

Þjálfari: Gernot Rohr frá Þýskalandi
Fyrirliði: John Obi Mikel

Embed from Getty Images

Leikjahæstir frá upphafi: Vincent Enyeama og Joseph Yobo spiluðu báðir 101 landsleik fyrir Nígeríu á sínum ferlum.
Leikjahæstur í HM-hópi: John Obi Mikel er með 86 landsleiki

Markahæstur frá upphafi: Rashidi Yekini skoraði 37 mörk í 58 landsleikjum, þar á meðal fyrsta markið sem Nígería skoraði í lokakeppni HM.
Markahæstur í HM-hópi: Ahmed Musa, framherji hjá Leicester City, hefur skorað 13 mörk í 72 landsleikjum. Victor Moses kemur þar á eftir með 11 mörk, en í 34 leikjum.

Embed from Getty Images

Nígería er núna að taka þátt í heimsmeistaramótinu í sjötta skiptið af síðustu sjö keppnum. Liðið missti af sæti á HM 2006 í Þýskalandi eftir að hafa endað í 2. sæti í sínum undanriðli. Nígería var þar með 21 stig eftir 10 leiki, líkt og Angóla. Nígería hafði meira að segja töluvert betri markamun (21-7 á móti 12-6 hjá Angóla) en Angóla tók efsta sætið út á betri árangur í innbyrðisviðureignum þeirra.

Nígería hafði stundum komist nálægt því að komast á HM en komst fyrst þangað árið 1994, þegar keppnin var haldin í Bandaríkjunum. Þá sló liðið heldur betur í gegn og varð eitt af uppáhaldsliðum margra. Nígería var líka með ansi gott lið á þessum tíma og náði m.a. að komast upp í 5. sæti á styrkleikalista FIFA. Það er enn í dag besti árangur Afríkuliðs á þessum lista.

Embed from Getty Images

Nígería komst í 16-liða úrslit árið 1994 og aftur í Frakklandi 1998. Sömuleiðis náði það þeim árangri í síðustu keppni, þar sem Frakkarnir náðu á endanum að slá þá út með 2-0 sigri. Bæði 2002 og 2010 komst Nígería ekki upp úr riðlinum sínum eftir að hafa í bæði skiptin aðeins náð einu jafntefli í leikjunum þremur.

Áður en keppnin hófst að þessu sinni hafði Nígería spilað samtals 18 leiki í lokakeppni HM. Fimm þeirra höfðu endað með nígerískum sigri, 3 með jafntefli og 10 með tapi. Markatalan þeirra í leikjunum 18 var 20-26.

Embed from Getty Images

Nígería hefur þrisvar sinnum orðið Afríkumeistari í fótbolta. Fyrst gerðist það á heimavelli árið 1980 þegar nígerska liðið vann Alsír 3-0 í úrslitum. Nígería vann 3 silfur og 1 brons fram að næsta titli, sem kom árið 1994. Þá fór keppnin fram í Túnis. Nígería spilaði gegn Sambíu í úrslitaleik og lenti undir strax á 3. mínútu. Þeir jöfnuðu þó strax á 5. mínútu og komust svo yfir á 47. mínútu og tryggðu sér titilinn. Síðast náði Nígería svo að vinna keppnina árið 2013, þegar hún fór fram í Suður-Afríku. Þá sigruðu ofurernirnir lið Búrkína Fasó í úrslitaleik með einu marki gegn engu. Athyglisvert er að Nígería hefur ekki náð að komast inn á Afríkukeppnina í þau tvö skipti sem keppnin hefur verið haldin síðan þeir unnu hana síðast.

Embed from Getty Images

Í undankeppninni fyrir þetta heimsmeistaramót lenti Nígería í riðli með Alsír, Kamerún og Sambíu. Nígería byrjaði afar vel og náði í sigra í fyrstu 3 leikjunum. Eftir jafntefli gegn Kamerún á útivelli í fjórðu umferð kom svo sigur á  Sambíu, sem enduðu í 2. sæti riðilsins, í næstu umferð á eftir og farseðillinn til Rússlands tryggður. Engu skipti þótt Nígería klúðraði lokaumferðinni. Reyndar gerði Nígería jafntefli í þeim leik gegn Alsír en klúðruðu því að telja gulu spjöld leikmanna sinna í leikjunum á undan. Þannig átti miðjumaðurinn Shehu Abdullahi að taka út leikbann í leiknum fyrir að hafa fengið tvö gul spjald. En hann spilaði leikinn og Alsír var því dæmdur 3-0 sigur. Sem breytti engu fyrir liðin, Nígería vann riðilinn fyrir það og Alsír endaði í neðsta sæti þrátt fyrir þessi þrjú stig sem þeim voru dæmd.

Markatalan sem Nígería endaði með var 11-6 en í raun skoraði liðið 12 mörk og fékk á sig 4. Alls tóku 20 lið þátt í þessari síðustu umferð af afrísku undankeppninni fyrir HM, aðeins eitt þeirra náði að skora fleiri mörk en Nígería. Reyndar var það Kongó sem náði því en þrátt fyrir að skora 14 mörk þá komst Kongó ekki á HM, þeir enduðu fyrir neðan Túnis í þeirra riðli.

Nígería fékk á sig 4 mörk, aðeins 3 af liðunum í undankeppninni fengu á sig færri mörk en það. Vörnin hefur þó ekki verið að standa sig eins vel hjá þeim upp á síðkastið, það hefur til dæmis reynst þeim erfitt að halda hreinu. Í síðustu 10 leikjum liðsins hafa þeir aðeins tvisvar náð að halda hreinu, en fengið á sig 14 mörk í hinum 8 leikjunum.

Embed from Getty Images

Markahæsti leikmaður Nígeríu í undankeppninni var Victor Moses með 3 mörk. Þeir Kelechi Iheanacho, Alex Iwobi og fyrirliðinn John Obi Mikel náðu allir að skora 2 mörk.


Fyrri viðureignir

Ísland og Nígería hafa aðeins einu sinni áður mæst á fótboltavellinum og það er komið ansi langt síðan sá leikur var spilaður. Það var í ágúst 1981 sem Nígería mætti alla leið til Íslands til þess að spila landsleik á Laugardalsvellinum 22. ágúst. 1.113 áhorfendur lögðu leið sína á Laugardalsvöllinn og sáu íslenskan 3-0 sigur í afskaplega leiðinlegu veðri. Dagblaðið eftir helgina orðaði það svona:

Í versta veðri í 35 ára landsleikjasögu Íslands í knattspyrnu, að viðstöddum fæstum áhorfendum í Reykjavík, sigraði íslenzka landsliðið Nígeríu auðveldlega 3—0 í landsleik landanna á Laugardalsvelli á laugardag.

Það er ekki ofsögum sagt að þarna hafi verið leiðindarveður, samkvæmt gamla kerfinu voru 9 vindstig þennan dag og rigning með. Það uppfærist í 20-24 m/s samkvæmt því kerfi sem nú er notað. Veðurstofan skilgreinir það sem storm og lætur þennan texta fylgja með til skýringar: Lítilsháttar skemmdir á mannvirkjum. Varla hægt að ráða sér á bersvæði. Glórulaus bylur ef snjóar. 

Semsagt, skítaveður!

Dagblaðið, 24. ágúst 1981

Mörk Íslands í þessum leik skoruðu Árni Sveinsson, Lárus Þór Guðmundsson og Marteinn Geirsson. Mark Marteins kom úr vítaspyrnu en fyrr í leiknum hafði Marteinn reyndar tekið aðra vítaspyrnu fyrir Ísland en þá hafði Ogebendbe markmaður Nígeríu varið slaka spyrnu Marteins. Í seinna vítinu spyrnti Marteinn í mitt markið og var þá Ogebendbe búinn að skutla sér í annað hornið.

Ísland hafði töluverða yfirburði í leiknum og hefði vel getað skorað fleriri mörk. Raunar skoraði liðið annað mark en það var dæmt af. Að auki fékk liðið mörg góð færi á meðan Nígería ógnaði lítið marki Íslands. Þeir nígerísku kvörtuðu þó sáran eftir leik og sögðu að þeir hefðu hreinlega ekki getað spilað fótbolta við svona aðstæður, þeim hefði verið orðið of kalt í rokinu og rigningunni. Veðrið hafði líka bein áhrif til að mynda í fyrsta marki Íslands. Þá kom fyrirgjöf utan af kanti sem virtist stefna út að vítapunkti þegar vindurinn greip boltann og feykti honum efst í markhornið, yfir greyið Ogebendbe í markinu.

Þjóðviljinn, 25. ágúst 1981

Þetta voru í öllu falli ekki aðstæður sem Nígeríumenn voru vanir. Stuttu áður hafði liðið spilað í Noregi og gert þar 2-2 jafntefli við heimamenn.

Hvað sem veðrinu leið þá var þetta kærkominn sigur fyrir íslenska liðið því þarna voru liðin rúmlega 4 ár frá síðasta sigri Íslands í landsleik á Laugardalsvellinum.

Bæði lið voru þarna að undirbúa sig fyrir leiki í undankeppninni fyrir HM á Spáni 1982. Ísland spilaði stuttu eftir þetta við Tyrkland og Tékkóslóvakíu á Laugardalsvelli og náði í 4 stig úr þeim leikjum. Eftir það fóru þeir til Wales og spiluðu þar í eftirminnilegum leik þar sem Ásgeir Sigurvinsson rak 2 mörk ofan í apalætin í Walesliðinu í 2-2 jafntefli. Ísland endaði þó í næst neðsta sæti riðilsins í það skiptið.

Vísir, 24. ágúst 1981

Nígería tók þátt í undankeppninni í Afríku, sem þá var með útsláttarfyrirkomulagi. 29 lið hófu þátttöku og 2 þeirra unnu sér að lokum inn sæti á HM á Spáni. Þegar Nígería kom í þessa æfingarferð til Evrópu var liðið að undirbúa sig fyrir lokaviðureignina, sem myndi skera út um það hvort liðið kæmist á HM eða ekki. Auk þess vildi liðið væntanlega vera búið að kynna sér evrópskan fótbolta ef ske kynni að það færi til Spánar.

Í íslenskum blöðum var því slegið upp fyrir þennan vináttuleik að Nígería væri komið langleiðina á HM og nánast búið að tryggja sig þangað inn. Vissulega rétt að Nígería var komið nálægt því en þessir Afríkumeistarar ársins 1980 áttu enn eftir að mæta Alsír. Alsíringarnir reyndust of sterkir í það skiptið og unnu báða leikina í einvíginu.

Alsír fór síðan á HM og varð spútniklið þess móts. Vann m.a. Vestur-Þýskaland og Síle áður en skammarlega framkoma Austurríkis og Vestur-Þýskalands varð að lokum til þess að þeir duttu ósanngjarnt úr leik.

Hvort rigningin og rokið í Reykjavík hafi spilað inn í að Nígeríu mistókst að komast á HM skal ósagt látið. Mögulega er það þó ástæðan fyrir því að nígerísku ofurernirnir hafa ekki enn kíkt í aðra heimsókn til Íslands.


Dómarahornið

Dómarinn í þessum leik heitir Matthew Conger. Conger fæddist í Plano, 270 þúsund manna borg í Texas, í október 1978 og verður því fertugur á árinu.

Conger byrjaði að dæma knattspyrnuleiki 15 ára gamall og hélt því áfram eftir að hann fluttist alla leið til Nýja-Sjálands, rúmlega tvítugur að aldri. Hann hóf að dæma í efstu deild í Nýja-Sjálandi árið 2007 og árið 2014 var hann einnig farinn að taka að sér að dæma leiki í efstu deildinni í Ástralíu. Árið 2017 var hann útnefndur dómari ársins í Nýja-Sjálandi.

Embed from Getty Images

Hann hefur verið alþjóðlegur FIFA dómari síðan 2013. Hann hefur dæmt leiki í Meistaradeild Eyjaálfu, undankeppni Eyjaálfuþjóða, Ólympíuleikunum auk þess að dæma á tveimur mismunandi heimsmeistaramótum u20-landsliða.

Hann hefur líka tekið nokkra leiki í indversku ofurdeildinni. Hann dæmdi m.a. leik Kerala Blasters gegn Chennaiyin FC, á heimavelli þeirra fyrrnefndu, í febrúar á þessu ári. Íslendingurinn Guðjón Baldvinsson var í byrjunarliði Kerala Blasters í leiknum og spilaði allan leikinn. Leikurinn endaði með markalausu jafntefli þrátt fyrir að heimamenn hafi fengið vítaspyrnu hjá Conger. Af einhverjum ástæðum fengu hvorki Guðjón né liðsfélagi hans Dimitar Berbatov að taka spyrnuna heldur var það kantmaðurinn Courage Pekuson sem tók vítið og klúðraði því.

Guðjón er, eftir því sem pistlahöfundur kemst næst, eini Íslendingurinn sem hefur spilaði í leik sem Conger hefur dæmt. Hann hefur hins vegar dæmt leik hjá Nígeríu áður. Það var á Ólympíuleikunum í Brasilíu 2016, þegar Nígería vann Svíþjóð með 1 marki gegn engu. Þetta verður fyrsti leikurinn sem hann dæmir á þessu heimsmeistaramóti.

Embed from Getty Images

Matthew Conger vann í fullu starfi sem kennari til ársins 2016 en þá hætti hann því til að helga sig knattspyrnudómarastörfum. Hann er þó enn kennari í hlutastarfi í grunnskóla í Palmerston North í Nýja-Sjálandi.

Aðstoðardómarar Conger í þessum leik verða Simon Lount frá Nýja-Sjálandi og Tevita Makasini frá Tonga. Fjórði dómari verður Ricardo Montero frá Kostaríka.


Áfram Ísland!

Ekki leiðinlegt að byrja á því að rifja upp leikinn gegn Argentínu.

FIFA er víst ekki til í að leyfa okkur að hafa myndbandið hérna en ef þið smellið hérna komist þið yfir á YouTube-myndband með því helsta úr þessum frábæra leik.

CNN gerði heimildarmynd um Ísland og HM-ævintýrið okkar. CNN er greinilega meira líbó en FIFA og er alveg til í að leyfa okkur að deila myndbandinu sínu hérna:

Svo er tilvalið að enda á Radspitz og Magna með sitt frábæra Tólfulag: