Leikdagur: Ísland – Króatía

Það er komið að lokaleiknum hjá strákunum okkar í riðlakeppninni heimsmeistaramótsins. Eftir flotta byrjun gegn Argentínu kom skellur gegn Nígeríu. En við eigum en séns og við höfum enn trú. Framundan er úrslitaleikur gegn góðkunningjum okkar frá Króatíu.

Heimsmeistaramót karlalandsliða í knattspyrnu í Rússlandi,
þriðjudaginn 26. júní 2018,
klukkan 18:00 að íslenskum tíma, 21:00 í Rostov-on-Don

Ísland – Króatía

3. umferð í D-riðli, lokaumferðin.

Völlur: Rostov Arena, tekur 45.000 áhorfendur.

Hér er upphitunarpistill um borgina Rostov-on-Don.
Hér er upphitunarpistill um völlinn Rostov Arena.

Mynd: Tripical.is

Stuðningurinn

Það hefur verið aðeins erfiðara hjá okkur stuðningsmönnum að halda uppi almennilegum stuðningi á pöllunum en það var til dæmis á Evrópumótunum síðustu tvö sumur. Það er meira en að segja það að tækla þetta þegar íslensku stuðningsmennirnir eru svona dreifðir um stúkuna á fullum leikvangi. En þetta hefur samt verið mjög gott miðað við aðstæður.

Embed from Getty Images

Við viljum hvetja ykkur öll sem farið á völlinn í Rostov til að gefa allt í þennan leik og taka þátt í hvatningunni, söngnum og stuðningnum. Það skiptir máli og skilar sér til strákanna inni á vellinum. Og ef andstæðingurinn skorar, þá syngjum við bara enn hærra! Í mótlæti þarf liðið mest á stuðningnum að halda.

Ef þið sitjið til dæmis nálægt trommustveitinni, endilega hjálpið henni við að koma lögum í gang svo það séu meiri líkur á að þau dreifi úr sér um alla stúkuna. Við erum öll í þessu saman. Eins ef það myndast stórir kjarnahópar af Íslendingum þá er um að gera að nýta þá til að starta einhverju sniðugu, hópar nálægt mega þá endilega taka undir það.

Embed from Getty Images

Svo minnum við á að víkingaklappið er núna tekið þrisvar sinnum í leik. Fyrst þegar 12 mínútur eru búnar af leiknum og þrettánda mínútan byrjar (þegar klukkan sýnir 12:00). Í annað skiptið þegar 12 mínútur eru búnar af seinni hálfleik og 58. mínútan hefst (klukkan sýnir 57:00). Að lokum þegar það eru 12 mínútur eftir af leiknum og 79. mínútan hefst (klukkan sýnir 78:00).

Við fengum líka ábendingu frá íþróttafréttamanninum frækna, Tómasi Þór Þórðarsyni hjá Vísi og Stöð 2, um að það gæti verið sniðugt að syngja lagið Vertu til í stúkunni og fá Rússana með okkur í það. Virkilega skemmtileg pæling og um að gera að sjá hvort það gangi ekki vel á fanfestinu fyrir leik og svo á pöllunum yfir leik.


Dómari: Antonio Mateu Lahoz frá Spáni

Veðurspáin…

… í Rostov-on-Don:

Það verður allt að 34 gráðu hiti á leikdegi í borginni. En leikurinn hefst hins vegar klukkan 21 að staðartíma, þá verður sólin búin að setjast og hitinn farinn að lækka. Sólin sest rétt rúmlega 20 mínútur yfir átta og þegar leikurinn hefst verður hitinn kominn niður í 28 gráður eða svo. Það verður skýjað en úrkomulaust og um 5 m/s af norðnorðaustanátt.

… í Reykjavík:

Það verður 10-11 gráðu hiti frá hádegi og fram yfir leik. Þrátt fyrir að það verði nokkuð skýjað þá á að haldast þurrt. Það verður létt gola, 5 m/s af suðsuðvestanátt. Svo veðrið ætti ekki að vera nein afsökun fyrir því að sleppa HM-torginu.


Dagskráin á leikdegi

Rostov-on-Don

Fanfestið í Rostov-on-Don verður nýtt vel sem upphitunarsvæði fyrir þennan leik. Við ætlum að hittast þar klukkan 15:00 og trommusveit Tólfunnar verður þar til að leiða fjörið. Það er gosbrunnur á fanfestinu, þar munum við byrja klukkan 15.

Það er líka svið á fanfestinu, þangað færum við okkur klukkan 16:20 og fáum að keyra íslenska stemningu í botn. Eftir að trommusveitin yfirgefur sviðið höldum við áfram að stilla okkur saman við gosbrunninn til 18:00. Þá færum við okkur yfir á völlinn, það er um það bil 60 mínútna labb að vellinum. Þegar á völlinn er komið ætlum við að syngja allan tímann og skilja allt eftir á vellinum. Áfram Ísland!

Fanfestið í borginni er á Teatralnaya Ploshchad, eða leikhústorginu (einnig hægt að finna það sem Theatre Square á kortum). Á torginu er 72 metra hár minnisvarði um grísku gyðjuna Níke. Þessi minnisvarði sést um alla borgina svo það ætti aldrei að verða mikið mál að finna staðinn.

Svæðið sjálft opnar í hádeginu og það verður einhver dagskrá á sviðinu auk þess sem fyrri leikir dagsins verða sýndir á risaskjá. Þarna verður veitingasala og líka hægt að fá hressandi söngvatn að drekka.

Hérna er hægt að sjá síðu FIFA um þetta fanfest.

Við minnum svo auðvitað á Tólfupartý Tripical sem verður um kvöldið. Að þessu sinni verður partýið í gamalli sígarettuverksmiðju, sem búið er að breyta í skemmtistað. Hér er síða Tripical um partýið, endilega kíkið á þetta og pantið miða ef það er ekki uppselt.

Reykjavík

Það eru margir staðir sem munu sýna þennan leik á Íslandi en á höfuðborgarsvæðinu er HM-torgið enn sem fyrr aðalstaðurinn. Þarna verður Tólfan, þarna verður skemmtileg dagskrá, þarna verður veitingasala og afþreying, þarna verður fyrst og fremst gríðarlegt stuð.

Svæðið opnar klukkan 16:00 og við hvetjum ykkur sem eruð nálægt til að fjölmenna og taka þátt í stuðinu. Hér má sjá Facebook-viðburðinn.


Ísland

Hér er HM-hópur Íslands.

Embed from Getty Images

Staða á styrkleikalista FIFA: 22. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: T J S S T T T J J T
Markatala í síðustu 10 leikjum: 18-18
Ísland hefur skorað í 8 af síðustu 10 leikjum og haldið hreinu í 1 af 10.

Þjálfari: Heimir Hallgrímsson
Fyrirliði: Aron Einar Gunnarsson

Embed from Getty Images

Það er enginn íslenskur leikmaður á gulu spjaldi fyrir þennan leik. Það er virkilega gott því það gæti komið upp sú staða að Ísland verði jafnt Argentínu á stigum og með sömu markatölu, þá fer það lið áfram sem er með færri mínusstig vegna brota og spjalda. Argentína hefur þegar fengið 3 gul spjöld í keppninni.

Staðan er sú að Ísland verður að vinna Króatíu til að komast upp úr riðlinum. Sömuleiðis má Nígería alls ekki vinna Argentínu. En eftir það geta ýmsir hlutir gerst sem hafa áhrif á stöðuna.

Hérna er hægt að setja inn stöðuna og fá útreikning á því hvort Ísland komist áfram eða ekki.

Áður en þessi þriðja umferð hófst í riðlakeppninni voru 8 þjóðir þegar úr leik í mótinu. En ekki Ísland, Ísland á enn séns. Við viljum sjá frammistöðu leikmanna sem hafa trú á verkefninu, við stuðningsmenn höfum trú á liðinu okkar. Áfram Ísland!

Embed from Getty Images


Króatía

Hér er upphitunarpistill um Króatíu.

Embed from Getty Images

Staða á styrkleikalista FIFA: 20. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: J S S J T S T S S S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 15-7
Króatía hefur skorað í 7 af síðustu 10 leikjum og haldið hreinu í 5 af síðustu 10 leikjum.

Þjálfari: Zlatko Dali?
Fyrirliði: Luka Modri?

Embed from Getty Images

Leikjahæstur frá upphafi: Darijo Srna, hægri bakvörðurinn spilaði 134 landsleiki fyrir Króatíu.
Leikjahæstur í HM-hópnum: Luka Modri? er kominn með 108 landsleiki.

Markahæstur frá upphafi: Davor Šuker skoraði 1 mark með gömlu Júgóslavíu, það kom gegn Færeyjum. Hann skoraði svo 45 mörk fyrir Króatíu.
Markahæstur í HM-hópnum: Mario Mandžuki? hefur skorað 30 landsliðsmörk fyrir Króatíu.

Embed from Getty Images

Júgóslavía tók þátt á 8 heimsmeistaramótum. Landslið þeirra náði 3. sæti í keppninni 1930 og 4. sæti árið 1962. Króatía var hluti af Júgóslavíu en þegar nasistar réðust inn í Júgóslavíu 1941 skildu þeir sig frá Júgóslavíu. Þá stofnuðu þeir m.a. sitt eigið landslið og gengu inn í FIFA sem Króatía. Á árunum 1941-45 spilaði liðið 14 vináttulandsleiki sem hluti af FIFA.

En eftir að Júgóslavía liðaðist í sundur hefur Króatía verið með á flestum stórmótum. Það gat ekki tekið þátt í undankeppninni fyrir HM 1994 en eftir það hefur Króatía verið með á öllum HM fyrir utan HM í Suður-Afríku 2010. Króatar náðu bestum árangri á fyrsta mótinu, unnu bronsið í Frakklandi 1998. Eftir það hafa þeir ekki komist upp úr riðlakeppninni fyrr en núna.

Króatar hafa líka tekið þátt í öllum Evrópumótum fyrir utan eitt, þeir komust ekki á EM í Belgíu og Hollandi árið 2000. Tvisvar hafa Króatar komist í 8-liða úrslit, einu sinni í 16-liða úrslit og tvisvar ekki komist upp úr riðlinum.

Króatar eru með afskaplega vel mannað lið og ekki skrýtið að þeir hafi byrjað þetta mót svona vel. Miðjan þeirra er ein sú allra besta sem völ er á og það er mikil reynsla í þessu liði.

Embed from Getty Images

Króatar hafa ekki enn fengið á sig mark á þessu móti, byrjuðu á að vinna Nígeríu 2-0 og svo Argentínu 3-0. Þeir gætu mögulega hvílt einhverja lykilmenn, auk þess sem Brozovi? tekur út leikbann eftir að hafa fengið annað gult spjald sitt á mótinu gegn Argentínu.

En það er ekkert endilega mikil hughreysting í því að lykilmenn verði hvíldir. Króatar eru þegar komnir áfram, ef þeir myndu spila á sínu sterkasta liði þá er líklegra að þeir myndu spara orku og hlífa sér heldur en leikmenn sem koma inn til að reyna að sanna sig og vinna sér inn pláss í byrjunarliðinu í 16-liða úrslitum.

Það er þó ekkert endilega að fara að henta okkar mönnum illa, við viljum alveg endilega fá alvöru leik og vinna þá bara þannig.


Fyrri viðureignir

Það kemur eiginlega á óvart að A-landslið Íslands í karlaflokki hefur aðeins mætt Króatíu sex sinnum fyrir þennan leik. Tilfinningin er sú að við höfum verið að spila við þetta króatíska lið á hverju ári frá því Króatía var hluti af Júgóslavíu. Svo er þó ekki alveg en á allra síðustu árum hafa þessar þjóðir verið ansi duglegar að dragast saman.

Merkilegt nokk þá mætti Ísland aldrei gömlu Júgóslavíu á knattspyrnuvellinum. Ekki í neinum aldursflokki, hvorki hjá körlum né konum.

Fyrstu viðureignirnar komu í undankeppninni fyrir heimsmeistaramótið í Þýskalandi 2006. Þá lentu þjóðirnar saman í riðli 8, ásamt Svíþjóð, Búlgaríu, Ungverjalandi og Möltu.

Fyrri leikurinn var í Króatíu 26. mars 2005, spilaður á Maksimir vellinum í Zagreb fyrir framan 17.912 áhorfendur. Niko Kovac skoraði fyrsta mark leiksins í fyrri hálfleik og þannig stóð í leikhlé. Króatía bætti svo við 3 mörkum í seinni hálfleik, þar af skoraði Kovac sitt annað mark í leiknum. Kári Árnason var í hópnum hjá Íslandi í leiknum en sat á bekknum allan tímann.

Daginn áður höfðu U21-lið þjóðanna mæst í Króatíu í undankeppninni fyrir EM U21-liða 2006. Ísland komst yfir í þeim leik á 41. mínútu með marki frá Ingva Rafni Guðmundssyni en Króatar jöfnuðu í uppbótartíma fyrri hálfleiks og skoruðu svo sigurmarkið á 80. mínútu.  Emil Hallfreðsson og Ólafur Ingi Skúlason voru báðir í byrjunarliði Íslands í þeim leik.

Embed from Getty Images

Seinni leikur A-landsliðanna í þessum undanriðli fór fram á Laugardalsvellinum 3. september 2005. Þá mættu 5.520 áhorfendur á völlinn og sáu fyrirliðann Eið Smára Guðjohnsen koma Íslandi yfir á 24. mínútu.

Það var ekki óalgengt að Ísland kæmist yfir í leikjum í þessum undanriðli. Af 10 leikjum sem liðið spilaði þá komst það yfir í sex þeirra. Aðeins einn af þeim vannst þó, hinir 5 töpuðust allir. Þessi eini sigur, plús markalaust jafntefli, skilaði Íslandi í næst neðsta sæti riðilsins, einu stigi fyrir ofan Möltu.

Þessi leikur gegn Króatíu var einn af þeim sem Ísland missti niður í tap. Framherjinn Boško Balaban, þáverandi leikmaður Club Brugge, skoraði 2 mörk og hægri bakvörðurinn Darijo Srna innsiglaði sigurinn á 82. mínútu. Aftur var Kári Árnason í hópnum og í þetta skiptið fékk hann að koma inn á sem varamaður á 79. mínútu, fyrir Auðun Helgason.

Daginn fyrir þennan leik höfðu U21-landslið þjóðanna spilað sinn seinni leik í sinni undankeppni. Hann fór fram á KR-vellinum. Króatar komust í 2-0 en Emil Hallfreðsson náði að minnka muninn í lok leiks með öðru af sínum 2 mörkum í undankeppninni, úr víti. Auk Emils var Ragnar Sigurðsson í hópnum í þessum leik en var ónotaður varamaður.

Embed from Getty Images

Árið 2013 mættust löndin í umspili um að komast á HM 2014 í Brasilíu. Króatía hafði þá endað í 2. sæti í A-riðli, 9 stigum á eftir Belgíu en fyrir ofan Serbíu, Skotland, Wales og Makedóníu. Ísland hafði á meðan endað í 2. sæti í E-riðli, 7 stigum á eftir Sviss en fyrir ofan Slóveníu, Noreg, Albaníu og Kýpur. Bæði Ísland og Króatía enduðu með 17 stig.

Fyrri leikurinn í umspilinu fór fram á Laugardalsvellinum 15. nóvember 2013, fyrir framan 9.767 áhorfendur. Eftir mikinn baráttuleik skildu liðin jöfn í markalausum leik, þar sem Ólafur Ingi Skúlason fékk rautt spjald á 50. mínútu.

Seinni leikurinn endaði hins vegar ekki nógu vel. 22.612 áhorfendur mættu á Maksimir-völlinn 19. nóvember 2013. Krótar komust yfir og misstu mann af velli í fyrri hálfleik en aftur var það hægri bakvörðurinn Darijo Srna sem innsiglaði króatískan sigur. Tap hjá Íslandi og einhverjir hafa eflaust haldið að þar hafi besta, og mögulega eina, tækifæri íslenska karlalandsliðsins til að komast á stórmót farið. Svo var þó aldeilis hreint ekki!

Ísland fór á EM og í undankeppninni fyrir þetta HM lentu liðin aftur saman í riðli. Fyrri leikurinn fór í þetta skiptið fram á Maksimir-vellinum, þann 12. nóvember 2016. Þá voru reyndar ekki 22 þúsund áhorfendur heldur 0 áhorfendur, vegna áhorfendabanns sem Króatía hafði nælt sér í vegna óviðeigandi söngva áhorfenda í leikjum gegn Ísrael og Ungverjalandi.

Króatar reyndust þó ekki þurfa á stuðningi áhorfenda að halda heldur náðu að vinna 2-0 sigur á Íslandi. Miðjumaðurinn Marcelo Brozovi? skoraði bæði mörkin, fyrra á 15. mínútu og seinna á 90. mínútu.

Embed from Getty Images

Ísland náði þó hefndum í seinni leiknum, sem og langþráðum fyrsta sigri á Króötum. Sá leikur fór fram á Laugardalsvelli 11. júní 2017. 9.775 áhorfendur sáu Hörð Magnússon axla inn sigurmarkið í lok leiks og fögnuðu mikið. Ísland endaði svo fyrir ofan Króatíu í riðli í undankeppninni og slapp við umspilið.

Af þessum 6 leikjum sem A-karlalandslið þjóðanna hafa spilað þá hafa Króatar unnið 4, Ísland 1 og 1 endað með jafntefli. Markatalan er 2-11.

Fyrir utan leiki U21-liðanna sem eru taldir upp hér að ofan hafa nokkrir núverandi leikmenn Íslands mætt Króatíu með yngri landsliðum.

Ari Freyr Skúlason, Birkir Bjarnason og Rúrik Gíslason voru allir í byrjunarliði U19-landsliðs Íslands sem tapaði 2-3 fyrir Króatíu í undankeppni EM 2006 5. október 2005. Ísland komst yfir í þeim leik og náði að jafna í 2-2 en Króatar skoruðu sigurmarkið í lok leiks.

Rúnar Alex Rúnarsson var í byrjunarliðinu og Frederik Schram á bekknum þegar U19-lið Íslands mætti Króatíu 28. október 2012 í undankeppninni fyrir EM 2013. Aftur var spilað erlendis en þessi leikur endaði 2-2.

Albert Guðmundsson og Samúel Jón Friðjónsson voru báðir í byrjunarliði U19-liðs Íslands sem mætti Króatíu 9. október 2014 í undankeppninni fyrir EM 2015. Sá leikur fór fram í Króatíu og endaði með 4-1 sigri heimamanna.


Dómarahornið

Dómarinn í þessum leik verður Antonio Mateu Lahoz. Hann kemur frá Algímia d’Alfara í Valencia á Spáni og fæddist þar í mars árið 1977. Þegar hann var ungur dreymdi hann um að verða fótboltaleikmaður en óx þess í stað upp sem knattspyrnudómari. Hann hóf að dæma í neðri deildum á Spáni árið 1999, var kominn upp í La Liga árið 2008 og orðinn alþjóðlegur FIFA dómari árið 2011.

Strax 2011 dæmdi hann sinn fyrsta leik í undankeppni A-landsliða þegar hann dæmdi leik Ítalíu og Norður-Írlands í undankeppninni fyrir EM 2012. Hann dæmdi líka leiki í undankeppnum fyrir EM og HM eftir það. Að auki hefur hann dæmt leiki í Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildinni.

Embed from Getty Images

Lahoz hefur dæmt einn leik hjá Íslandi áður. Það var vináttuleikur gegn Rússlandi á Marbella 6. febrúar 2013. Rússland vann þann leik 2-0, ekkert spjald fór á loft í þeim leik.

Lahoz hefur dæmt tvo leiki hjá Króatíu fyrir þennan leik. Sá fyrri var 10. október 2014, í undankeppni EM 2016, á útivelli gegn Búlgaríu. Seinni leikurinn var svo 24. mars 2017, í undankeppni HM 2018, á heimavelli gegn Úkraínu. Báðir þessir leikir enduðu 1-0 fyrir Króatíu.

Hann hefur dæmt einn leik á þessu heimsmeistaramóti, það var leikur Danmerkur og Ástralíu í 2. umferð í C-riðli. Sá leikur endaði 1-1 þar sem Lahoz dæmdi m.a. vítaspyrnu eftir myndbandsdómgæslu.

Lahoz þykir ansi skrautlegur karakter, sækist í að vera í sviðsljósinu og dæmir oftar en ekki eftir annarri línu en hinir dómararnir, til dæmis í spænsku deildinni. Hann hefur verið kallaður Hinn spænski Mike Dean, sem segir ansi mikið um hann.


Áfram Ísland!